Brimrótið jós grjóti á land

Margir nýttu tækifærið til útivistar í dag eftir storminn síðustu daga. Logn og bjartviðri var í höfuðborginni en ummerki um fárviðrið á föstudag mátti þó víða sjá, t.a.m. við Sæbrautina.

Mikið brimrót var við sjávarsíðu Reykjavíkur á föstudaginn og þegar hvað verst lét gekk sjór á land við Sæbraut og varaði lögregla við ferðum um svæðið vegna vinds og hættu sem stafaði af sjónum.

Sú saga komst á flug á föstudag að hval hefði skolað upp á brimvarnargarðinn við Sæbraut með stærstu öldunum. Lítill fótur reyndist fyrir því þótt tölvugerð mynd hafi fengið marga til að trúa öðru. Sjórinn skildi hins vegar ýmislegt eftir sig, annað en saltstorknar gluggarúður bygginga og bíla.

Á göngu- og hjólastígnum meðfram Sæbrautinni má víða sjá grjóthrúgur sem sjórinn virðist hafa ausið þar á land. Urðu þær vegfarendum til nokkurs trafala í dag þegar þeir spókuðu sig í kærkominni veðurblíðu. Verðugt verkefni bíður því götusópara Reykjavíkurborgar á morgun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert