Mjög hvasst undir Eyjafjöllum

Vegir eru að mestu auðir á Suðurlandi en miklar vindhviður eru undir Eyjafjöllum. Vindhviður eru einnig á varúðarmörkum bæði á Reykjanesbraut og Kjalarnesi, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

Vaxandi austan- og suðaustanátt, 18-28 m/s í dag, hvassast SV-til og rigning eða slydda. Talsverð eða mikil úrkoma á SA-verðu landinu. Lægir mikið SV-lands upp úr hádegi og síðar einnig á N- og A-landi. Hlýnandi veður, hiti 0 til 7 stig síðdegis.

Á Vesturlandi er stórhríð á Fróðárheiði og hált. Hálka er líka á Holtavörðuheiði en hálkublettir á Bröttubrekku, Vatnaleið og víðar.

Hálka er nokkuð víða á Vestfjörðum en aðalleiðir þokkalega færar miðað við árstíma. Verið er að moka innstrandaveg.

Í Húnavatnssýslum og Skagafirði er víða nokkur hálka en sumstaðar þæfingur eða þungfært á útvegum. Þverárfjall er þungfært en þar er verið að moka.

Laxá í Aðaldal flæðir enn yfir þjóðveginn

Það er hálka við Eyjafjörð en þungfært í Víkurskarði og Ljósavatnsskarði. Þar er nú versnandi veður.

Laxá í Aðaldal flæðir yfir veg við afleggjarann frá Tjörn í Köldukinn, hraði hefur verið tekinn niður í 50 km og eru vegfarendur beðnir að sýna varúð. Ófært er um Hólasand og eins að Dettifossi. Þæfingsfærð er á Mývatnsöræfum.

Á Austurlandi er hálka eða snjóþekja á flestum vegum. Varað er við flughálku á Oddsskarði en verið er að hálkuverja. Þá er slæmt veður á Fjarðarheiði og þæfingsfærð en moksturstæki á staðnum. Breiðdalsheiði og Öxi eru  ófærar.

Á Suðausturlandi eru hálkublettir á fáeinum köflum og raunar hálka á Mýrdalssandi.

Fjúkandi fossar undir Eyjafjöllum
Fjúkandi fossar undir Eyjafjöllum mbl.is/Einar Falur Ingólfsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert