Varaaflið entist í fjóra tíma

Varaafl á gsm sendum símans entist í fjórar klukkustundir á …
Varaafl á gsm sendum símans entist í fjórar klukkustundir á föstudag og farsímasambandslaust varð í um tvær klukkustundir. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Það eru Almannavarnir sem ákveða þær leiðir sem notaðar eru við rýmingaráætlun. Varaafl GSM-senda Símans endist almennt í um fjórar til átta klukkustundir, jafnvel lengur. Þau eru afar fá undantekningartilvikin sem sá tími dugar ekki til,“ segir í svari Símans til mbl.is þegar leitað var eftir viðbrögðum fyrirtækisins við því að farsímasamband hafi farið úr skorðum á föstudag sunnan Mýrdalsjökuls vegna rafmagnsleysis.

Þrír sendar misstu afl í óveðrinu um hádegi á föstudag, á Hrífunesi í Skaftártungu, á Hunkubökkum og á Höfðabrekku austan Víkur í Mýrdal. Sendarnir skiptu yfir á varaafl þegar rafmagnið fór af en rafhlöðurnar tæmdust og um klukkan hálffimm fóru sendarnir út og GSM-samband úr skorðum. Rafmagnið kom aftur á á sjöunda tímanum en ekkert farsímasamband var á í um tvær klukkustundir.

Almannavarnir og björgunarsveitir reiða sig á GSM-kerfið þegar rýma þarf svæði vegna eldgosa. Svæðið sem um ræðir er hættusvæði vegna Kötlugoss. Það eru þó til fleiri úrræði til boðsendinga ef GSM-kerfið er óvirkt, en þau eru vissulega seinvirkari.

Hafði ekki áhrif á heimasíma eða gagnaflutninga

„Eins og kunnugt er þá er ástæða þess að keyra þurfti á varaafli í ofsaveðrinu á föstudaginn sú að rafmagnsstaurar brotnuðu. Hefðu línurnar legið í jörð, hefði rafmagnið vart farið af á þessum slóðum og farsímasambandið því haldist í veðrahamnum.

Síminn áréttar að farsímasambandsleysið hafði ekki áhrif á heimasíma eða gagnaflutninga og að björgunarsveitirnar hafa að sjálfsögðu aðgang að Tetra-öryggiskerfinu sem var byggt upp sérstaklega til notkunar við erfiðar aðstæður. Þá er það svo að GSM-kerfin eru ekki skilgreind sem öryggiskerfi, þótt þau veiti mikið öryggi og séu notuð sem ein af leiðum Almannavarna við að koma upplýsingum til almennings.

Síminn í góðu sambandi við Neyðarlínuna

Síminn er í góðu sambandi við Neyðarlínuna og upplýsa starfsmenn hana að sjálfsögðu sé um rekstrartruflanir að ræða. Ætíð er því full vitneskja um stöðu fjarskiptakerfa á hverjum tíma þegar metið er hvernig rýmingaráætlun er framkvæmd.“

- Kemur til greina að bæta úr þannig að tryggt sé að varaaflið endist lengur?

„Hægt væri að tryggja aukið varaafl og lengja þennan tíma telji Almannavarnir þörf á. En þá þarf að meta þörfina frekar og hvort aðrar leiðir tryggi betur öryggið – eins og sú að leggja raflínur í jörð.

Í rafmagnsleysi má hins vegar stóla á heimasíma. Þannig var það einnig í þessu tilviki. Enginn á svæðinu, sem hefur heimasíma, var því símasambandslaus í óveðrinu sem geisaði á föstudag.“

Tengd frétt:

„Mjög alvarlegt ef þetta fer“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert