Tjónatilkynningum rignir inn

Alltaf er eitthvað um að eigendur trampólína gleymi að festa …
Alltaf er eitthvað um að eigendur trampólína gleymi að festa þau niður í óveðri. Skapti Hallgrímsson

Á þriðja tug tjónatilkynninga vegna óveðursins á föstudaginn höfðu borist til VÍS fyrir hádegi í dag. Flestar eru tilkynningarnar vegna tjóns á húsum og bílum vegna foks lausamuna.

„Þetta reytist til,“ segir Agnar Óskarsson framkvæmdastjóri tjónasviðs hjá VÍS. „En við eigum von á fleiri tilkynningum.“

Trampólín á flugi

Spurður að því hver beri ábyrgð á tjóni af völdum trampólíns á flugi, ekki síst þar sem varað hafi verið við veðrinu og eigendur slíkra gripa og aðrir ættu að hafa haft ráðrúm til að gera ráðstafanir og festa lausamuni, segir Agnar að hvert og eitt tilvik sé alltaf metið fyrir sig hvað varði ábyrgð gagnvart öðrum. 

„En ef trampólín skemmist í svona veðri, þá fær fólk það ekki bætt. Ef það veldur skemmdum og vindhraðinn fer yfir 28,5 m á sekúndu þá ber eigandinn að öllu jöfnu ekki sök, en fólk verður að hafa viðhaft varúðarráðstafanir,“ segir Agnar.

Smábíll fauk á annan bíl

Frá Sjóvá fengust þær upplýsingar að talsvert af tilkynningum um tjón hefðu borist, en fjöldi þeirra lá ekki fyrir á hádegi. Flestar þeirra berast af höfuðborgarsvæðinu og eru yfirleitt vegna þess að lausamunir eins og til dæmis öskutunnur og trjágreinar fuku á bíla og hús. Nokkuð var tilkynnt um að bílrúður hefðu brotnað vegna þessa.

Þá barst Sjóvá tilkynning um að smábíll hefði fokið á annan bíl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert