Foreldrar fylgi börnum sínum í skóla

„Veðurspáin fyrir höfuðborgarsvæðið á morgun bendir til að börn gætu átt erfitt með að komast til skóla. Grunnskólar verða opnir en röskun gæti orðið á starfi þeirra. Foreldrar eru því beðnir að fylgjast vel með veðurspám og tilkynningum í fjölmiðlum.“

Þetta segir í tilkynningu frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins en lýst hefur verið yfir viðbúnaðarstigi eitt vegna skólahalds á morgun vegna óveðursins sem gengur yfir landið í nótt og á morgun en þess mun einkum verða vart á Suður- og Vesturlandi.

Lýsing á viðbúnaðarstigi eitt:

„Röskun getur orðið á skólastarfi vegna veðurs ef starfsfólk á erfitt með að komast í skóla. Við þessar aðstæður eru skólar engu að síður opnaðir og taka á móti nemendum og þeir geta dvalið þar á meðan skipulagt skólahald á að fara fram.

Mjög mikilvægt er að foreldrar fylgi börnum til skóla og yfirgefi þau alls ekki fyrr en þau eru í öruggum höndum starfsfólks. Í upphafi skóladags getur verið að mönnun skóla sé takmörkuð. Foreldrar geta þá búist við því að starfsfólk leiti liðsinnis þeirra. Foreldrar eru hvattir til að taka slíkum beiðnum vel.

Geisi óveður við lok skóladags er metið hvort óhætt sé að senda börnin heim eða hvort ástæða er til að foreldrar sæki börn sín. Þá eru gefnar út tilkynningar um það, auk þess sem skólarnir leggja sig fram um að hafa samband við foreldra.“

Tilkynning á vef slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert