„Getur verið kalt á toppnum“

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Rax

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins telur að sigur sinn í prófkjöri flokksins í SV-kjördæmi hafi verið afgerandi þó vissulega hafi hann viljað fá meiri stuðning sem sitjandi formaður. Hann telur að ómálefnalega hafi verið að sér sótt í aðdraganda prófkjörsins.

„Við fáum góðan lista hér í kjördæminu sem er sigurstranglegur. Það fannst mér takast vel,“ segir Bjarni.

Bjarni viðurkennir að hann hefði viljað fá meiri stuðning í 1. sæti en hann fékk um 54% atkvæða í prófkjörinu. Hann telur stöðu sína engu að síður sterka.

„Það er enginn sem ógnar minni stöðu í þessu prófkjöri. Fleiri sóttust eftir því að leiða listann. Ég hefði gjarnan viljað sjá enn meiri stuðning. En í dag eru umbrotatímar og það getur verið kalt á toppnum. Ég hef séð margt í pólitíkinni og geri mér grein fyrir því að þessi niðurstaða er til komin vegna neikvæðrar umræðu, bæði innan og utan flokks. Að mér var sótt með stórum orðum. Sjálfstæðismenn komust hins vegar að þeirri niðurstöðu að þeir sem höfðu hæst hefðu ekkert að gera á þing,“ segir Bjarni.

Hann segist hafa staðið í mótbyr frá því hann fékk góða kosningu árið 2008. Mestu skipti að  „halda haus.“ Hann telur að oft á tíðum hafi aðilar haldið uppi ómálefnalegri gagnrýni á hann. „Mér fannst sumt af því sem sagt var í aðdraganda þessa kosninga vera viðkomandi aðilum til mikillar minnkunar,“ segir Bjarni. 

„Ég er alltaf tilbúinn að taka alla málefnalega umræðu, hér eftir sem hingað til. Ég kveinka mér ekkert undan því. Ég vek athygli á því að ég lýk þessu prófkjöri með afgerandi sigri. Ég hef unnið allar kosningar sem ég hef farið í fyrir Sjálfstæðisflokkinn og fyrir það er ég þakklátur,“ segir Bjarni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert