Pólitík að baki takmörkun heimilda

Þrengt er að rannsóknarheimildum lögreglu.
Þrengt er að rannsóknarheimildum lögreglu. Brynjar Gauti

Helst verður ráðið að frumvarp innanríkisráðherra um breytingu á heimildum lögreglu til símahlustana sé fyrst og fremst pólitískt og endurspegli að nokkru sjónarmið þeirra sem talað hafa fyrir því að þrengja rannsóknarheimildir lögreglu með friðhelgi einkalífs að leiðarljósi. Þetta segir í umsögn Ákærendafélags Íslands um frumvarpið.

„Þrátt fyrir að frumvarpið láti ekki mikið yfir sér er um að ræða mjög mikla breytingu á núgildandi heimildum lögreglu til símahlustana og skyldra rannsóknaraðgerða. Þess háttar rannsóknaraðgerðir skipta oft mjög miklu máli við rannsóknir alvarlegra sakamála, t.d. stórra fíkniefnamála,“ segir í umsögninni sem Jón H.B. Snorrason, formaður Ákærendafélagsins, skrifar undir. 

Þær aðgerðir sem átt er við auk símhlustana eru upptaka á hljóðum og merkjum, taka ljósmynda og kvikmynda, og notkun eftirfararbúnaðar.

Þá segir að það skjóti skökku við að á sama tíma og talað sé fyrir því að styrkja lögregluna í baráttunni við skipulagða glæpastarfsemi eða til að koma í veg fyrir fíkniefnainnflutning sem mikil vá stafi af og fari vaxandi í samfélaginu skuli komið fram með frumvarp sem feli í raun í sér að mjög verði þrengt að rannsóknarheimildum lögreglunnar. „Verður helst ráðið að unnið hafi verið að málinu af flýti eða samkvæmt fyrirfram ákveðnum forsendum og ekki hafi staðið til að gæta samráðs við undirstofnanir og þá sérfræðinga sem starfa innan lögreglu og ákæruvalds og þekkingu hafa á málefninu.“

Ákærandafélagið telur að verði frumvarpið að óbreyttu að lögum þá séu allar líkur á því að dómstólar muni beita mjög ströngum mælikvarða þegar kemur að mati á skilyrðum símahlustunar og skyldum rannsóknarúrræðum. „Orðalag frumvarpsins skírskotar beinlínis til þess að almannahagsmunir eða einkahagsmunir verði að vera „ríkir“ til viðbótar við önnur ströng efnisleg skilyrði. Það verður að telja að með þessu áherslu orðalagi sé gengið allt of langt að teknu tilliti til þess að um er að ræða viðbótarskilyrði við önnur þröng efnisleg skilyrði fyrir beitingu úrræðanna.“

Frumvarp innanríkisráðherra

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert