Vandinn vegna aðgerðaleysis stjórnvalda

„Erfiðleikar sjóðsins eru afleiðing þeirrar stefnu „norrænu velferðarstjórnarinnar“ að gera ekkert til að jafna byrðar þeirra sem fengu innistæður sínar að fullu tryggðar og hinna skuldsettu sem voru látnir taka á sig verðbólguskot hrunsins á sama tíma og laun lækkuðu, kaupmáttur rýrnaði og fasteignaverð lækkaði.“

Þetta segir Lilja Mósesdóttir, alþingismaður, á Facebook-síðu sinni í morgun vegna erfiðleika Íbúðalánasjóðs. Skattgreiðendur séu nú látnir leiðrétta halla sjóðsins með útgáfu ríkisskuldabréfs en stjórnvöld ákváðu í gær að leggja honum til 13 milljarða króna til þess að bæta eiginfjárhlutfall hans. Hins vegar er talið að þörf sé á greiðslum úr ríkissjóði til Íbúðalánasjóðs sem nemi a.m.k. 48 milljarða á næstu árum.

„Innistæðutryggða fólkið greiðir upp lán hjá Íbúðalánasjóði og nýtir sér betri kjör í bankakerfinu á sama tíma og þeir skuldsettu lenda í vanskilum og missa fasteignir sínar til sjóðsins. Í stað þess að leiðrétta stöðuna áður en skuldsettar fjölskyldur lenda á götunni var ákveðið að gera ekkert og aðstoða síðan Íbúðalánasjóð með því sem Jóhanna og Steingrímur J. hafa úthrópað sem „töfralausn“ eða útgáfu ríkisskuldabréfs,“ segir Lilja ennfremur og vísar þar til Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, og Steingríms J. Sigfússonar, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra.

Lilja Mósesdóttir, alþingismaður.
Lilja Mósesdóttir, alþingismaður. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert