„Hann er oft að leika sér hér í ræðustól“

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn

„Það er verðbólgan sem skiptir máli í þessu og hún hefur ekki aukist hér á síðari hluta ársins og það hefur ekki verið talin ástæða til þess að breyta verðbólguspánni frá því að fjárlögin komu fram og það er það sem hlýtur að skipta máli.“

Þetta sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra á Alþingi í dag í svari við fyrirspurn frá Guðlaugi Þór Þórðarsyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, sem vakti máls á því að upplýst hefði verið á fundi efnahags- og viðskiptanefndar þingsins í morgun að eingöngu hækkun á tóbaksgjaldi samkvæmt fjárlagafrumvarpinu yrði til þess að auka skuldir heimilanna um þrjár milljarða króna.

Guðlaugur sagði mjög mikilvægt að forsætisráðherra upplýsti þjóðina um það hver hækkun lána heimilanna yrði vegna hækkana ríkisstjórnarinnar samkvæmt frumvarpinu. Þá spurði hann ennfremur hvers vegna ekki væri reynt að miða hækkanirnar út frá hagsmunum heimilanna í landinu. Brást hann harðlega við þeim ummælum Jóhönnu að hann væri með fyrirspurn sinni að leika sér með einstaka liði frumvarpsins.

Sagði Guðlaugur ennfremur að ef það væri ein manneskja á Íslandi sem ekki gerði sér grein fyrir þeim vanda sem íslensk heimili stæðu frammi fyrir þá væri það forsætisráðherra sem hefði afhjúpað sig í umræðunni og ekki svarað þeirri spurningu hvaða áhrif fjárlagafrumvarpið hefði á lán heimilanna. Ítrekaði hann fyrirspurn sína til Jóhönnu og bað hana að kalla málið ekki leiki.

Ráðherrann svaraði því til að hún kippti sér lítið upp við það þó Guðlaugur réðist að sér úr ræðustól Alþingis. „Það er regla frekar en undantekning hjá háttvirtum þingmanni að gera það og hann er oft að leika sér hér í ræðustól og það er kannski það sem ég á við þegar ég er að tala um það.“

Jóhanna beindi síðan orðum sínum að forseta Alþingis og spurði hvort hann teldi að Guðlaugur hefði haft fyrir því að reikna út áhrif gjaldtöku þeirrar ríkisstjórnar sem hann hefði setið í á verðbólguna sem hefði verið töluverð. Sagði hún að þingmaðurinn ætti frekar að horfa til þess jákvæða sem finna mætti í fjárlögunum fyrir heimilin í landinu eins og til að mynda varðandi fæðingarorlof, vaxtabætur og barnabætur.

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert