Jón heimilisfastur á Íslandi

Jón Ólafsson
Jón Ólafsson

„Viðurkennt er að áfrýjandi, Jón Ólafsson, var heimilisfastur og bar fulla og ótakmarkaða skattskyldu hér á landi frá 1. september 1998 til 31. desember 2001.“ Þetta segir í dómsorði Hæstaréttar í máli Jóns gegn íslenska ríkinu.

Tildrög málsins eru þau að 21. febrúar 2002 tilkynnti skattrannsóknarstjóri ríkisins Jóni að rannsókn væri hafin á skattskilum hans vegna tekjuáranna frá og með 1996 til og með ársins 2001. Rannsókninni lauk 29. september 2003 með útgáfu skýrslu, dagsettri sama dag. Í skýrslunni kemur fram að 22. nóvember 2002 hafi Hagstofu Íslands, Þjóðskrá, borist tilkynning frá Jóni um að hann og fjölskylda hans hafi verið með lögheimili í Bretlandi frá og með 1. september 1998. Hinn 29. nóvember 2002 hafi skráningu hjá Hagstofu Íslands, Þjóðskrá, verið breytt afturvirkt til samræmis við framangreinda tilkynningu.

Ríkisskattstjóri kvað upp úrskurð, dagsettan 17. desember 2003, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að Jón hefði verið með skattalega heimilisfesti og borið fulla og ótakmarkaða skattskyldu hér á landi og áfram uns annað yrði ákveðið. Um þá niðurstöðu snerist ágreiningur málsins.

Í málinu var m.a. tekist á um hvort Jón hefði greitt skatta í Bretlandi. Í svari breskra skattyfirvalda til skattyfirvalda hér á landi kom fram að Jón væri skattskyldur í Bretlandi á grundvelli tvísköttunarsamnings milli landanna. Í svarinu kom fram að þetta gilti um tekjur sem fluttar væru inn til Bretlands. Í svarinu kom einnig fram að bresk skattyfirvöld töldu árið 2003, í kjölfar fyrirspurna skattrannsóknarstjóra á Íslandi, ástæðu til að skoða betur skattamál Jóns í Bretlandi.

Dómur Hæstaréttar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert