Reynt að snúa þróuninni á LSH við

mbl.is/ÞÖK

Ekki liggur fyrir hvenær fulltrúar hjúkrunarfræðinga munu funda með velferðarráðherra og forstjóra Landspítalans um kjaramál hjúkrunarfræðinga. Framkvæmdastjóri mannauðssviðs LSH segir ljóst að málið sé komið á alvarlegt stig.

„Við erum að reyna að finna út úr því hvernig er hægt að snúa þessu við,“ segir Erna Einarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs Landspítalans, í samtali við mbl.is.

„Ég veit ekki til þess að það sé búið [að ákveða fund]. Enda kannski málið komið á annað og alvarlegra stig,“ segir hún aðspurð.

Á þriðjudag sendi Landspítalinn frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að á þessu ári hafi margar starfsstéttir á Landspítala lýst óánægju með kjör sín. Það hafi nú komið skýrast fram með uppsögnum 254 hjúkrunarfræðinga í 193 stöðugildum. Uppsagnirnar munu að óbreyttu taka gildi 1. mars 2013.  Alls starfa 1.348 hjúkrunarfræðingar á spítalanum.

„Við erum að tala við alla þessa hjúkrunarfræðinga sem sögðu upp störfum, til að heyra hvað það er sem veltir þessum steini og kannski líka til að fá hugmyndir að lausn,“ segir Erna og bætir við að það gangi ágætlega.

Hún tekur fram að þetta sé mikið verk enda hjúkrunarfræðingarnir margir. Það liggi því ekki fyrir hvenær viðtölunum muni ljúka. „Það er mjög mikið að gera á spítalanum varðandi sjúklingaþjónustuna.“ Hún bætir við að hjúkrunardeildarstjórar hafi verið beðnir um að setja málið í forgang. 

„Auðvitað skiptir það okkur málið að það gangi hratt og vel,“ segir Erna og bætir við að hún viti ekki betur en að allir hjúkrunarfræðingar séu mjög fúsir til að ræða stöðu mála við sína deildarstjóra og að viðtölin hafi gengið vel.

Spurð hvort hægt verði að telja hjúkrunarfræðingunum hughvarf segir hún: „Ég held að við verðum að trúa því öll hér á þessu landi að það verði hægt.“

Fram hefur komið að mikil óánægja er hjá hjúkrunarfræðingum innan Landspítalans vegna stofnanasamninga sem enn hafa ekki verið endurskoðaðir í samræmi við kjarasamninga. Krafa er uppi um að hjúkrunarfræðingar fái kjarabætur í stofnanasamningnum en stjórn LSH kveðst ekki hafa fjármagn til þess að hækka launin við starfsfólk sitt.

Stjórn hjúkrunarráðs Landspítalans sendi frá sér ályktun á þriðjudag þar sem hún lýsir yfir miklum áhyggjum af uppsögnunum. „Stjórn hjúkrunarráðs beinir því til stjórnenda á Landspítala, stjórnvalda og hjúkrunarfræðinga að finna leiðir til að leysa þetta mál sem allra fyrst. Án þessara hjúkrunarfræðinga verður Landspítali að mestu óstarfhæfur,“ segir í ályktuninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert