Ekki rétt að vera með „munnbrúk“

Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvegaráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvegaráðherra. mbl.is/Kristinn

„Það er fráleitt að halda því fram að Ísland hafi ekki lagt sitt af mörkum,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, í umræðum á Alþingi í dag í svari við fyrirspurn frá Gunnari Braga Sveinssyni, þingmanni Framsóknarflokksins.

Gunnar vakti athygli á því að haft væri eftir Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins, að Ísland hefði engar tillögur lagt fram um lausn makríldeilunnar á þeim samningafundum sem haldnir hefðu verið. Sagði hann að skilja mætti ummælin svo að lítill tilgangur væri með því að ræða við Íslendinga. Kallaði hann eftir því að ummælum Damanaki yrði mótmælt og þau leiðrétt.

Steingrímur sagði að ef svara ætti öllum þeim ummælum sem beint væri gegn Íslandi vegna makríldeilunnar, þá ekki síst í skoskum og írskum fjölmiðlum, gerðu íslensk stjórnvöld ekki annað. Hins vegar væri það öllu alvarlegra þegar slíkt kæmi frá sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins.

Hins vegar hefðu stjórnvöld lagt áherslu á að meta það hverju sinni hvort það þjónaði hagsmunum Íslands að svara slíkum ummælum. Ekki hefði verið litið svo á að það væri landinu í hag að vera með miklar yfirlýsingar og „munnbrúk“ heldur fremur að koma upplýsingum á framfæri og standa síðan í lappirnar við samningaborðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert