Sökinni varpað á Íslendinga eina

Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Viðskiptaþvinganir munu ekki leiða til lausnar á þessari deilu. Fyrir velferð landsins okkar og Norður-Atlantshafsins verðum við að ná samkomulagi. Við erum reiðubúin að leggja okkar að mörkum,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, í grein sem birtist í bandaríska viðskiptablaðinu Wall Street Journal í dag, þar sem hann gerir að umtalsefni makríldeiluna við Evrópusambandið og Noreg.

Steingrímur gagnrýnir þar Evrópusambandið og Norðmenn meðal annars fyrir að ætla að taka sér 90% þess makrílkvóta sem vísindamenn hafa ráðlagt og ætla Íslendingum, Færeyingum og Rússum aðeins þau 10% sem eftir eru. Hann bendir á að öll ríkin sem koma að málinu séu í þeirri stöðu að geta gefið út einhliða makrílkvóta þar sem ekki liggi fyrir samningar um skiptingu stofnsins og fyrir vikið sé hætta til staðar á ofveiði.

„En í stað þess að leita að lausn sem skilar öllum sanngjörnum hlut varpa ákveðin ríki Evrópusambandsins sökinni á Ísland og heimta að það eitt dragi úr veiðum sínum. Umrædd ríki sambandsins hóta jafnvel viðskiptaþvingunum af hálfu þess eins og að halda íslenskum skipum frá höfnum og banna innflutning á afurðum sem leiða af makrílveiðum landsins,“ segir ráðherrann ennfremur.

Steingrímur bendir á að Íslendingar hafi lagt til að öll ríkin drægju úr makrílveiðum sínum sem næmi 15-20% en ekki hafi verið tekið undir það. Sem strandríki verði aðilar málsins að sinna sameiginlega og ábyrga lausn á því sem tryggi sjálfbærar veiðar. „Við verðum að finna sanngjarna og varanlega lausn. Einhliða nálgun mun aðeins leiða til ofveiði sem skaðar okkur öll.“

Grein Steingríms J. Sigfússonar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert