Versnandi veður fyrir norðan

Frá Ísafirði í dag en þar er allt á kafi …
Frá Ísafirði í dag en þar er allt á kafi í snjó mbl.is/Halldór Sveinbjörnsson

Ofsaveður geisar enn á norðvesturhluta landsins frá sunnanverðu Snæfellsnesi, norður yfir Vestfirði og austur yfir Tröllaskaga. Veður fer versnandi á norðausturhluta landsins og samkvæmt upplýsingum mbl.is frá Akureyri er færð byrjuð að spillast innanbæjar.

Á norðaustanverðu landinu frá Eyjafirði að Austfjörðum hvessir nú og kólnar, þar má búast við norðan og norðaustan 13-20 m/s og hríðarveðri í kvöld og nótt, einnig má búast við ísingu á vegum austantil í nótt, þar hefur verið rigning eða krapi sem frystir ofan í í nótt. Það dregur smám saman úr vindi norðvestantil í kvöld og nótt, en þar verður þó áframhaldandi hríð og slæmt skyggni og ekkert ferðaveður.

Á suðvesturlandi eru norðaustan 15-23 m/s og hviður við fjöll 30-40 m/s, en lægir í nótt en þá hvessir suðaustanlands, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

Vegagerðin biður vegfarendur að hafa í huga að vegna rafmagnsleysis og bilana í fjarskiptakerfum má búast við truflun á sendingu frá veðurstöðvum og öðrum búnaði.

Vegna snjóflóðahættu er lokað á Vestfjörðum um Súðavíkurhlíð, Skutulsfjarðarbraut, Eyrarhlíð, Botnsdal, Breiðadal og Flateyrarveg en á Norðurlandi bæði um Siglufjarðarveg og Ólafsfjarðarmúla.

Á Suðurlandi er sumstaðar krapi eða nokkur hálka. Hálka er á Hellisheiði og í Þrengslum. Hálka er á milli Hafna og Grindavíkur en hálkublettir á Suðurstrandarvegi.  Hálkublettir og óveður er á Kjalarnesi. Leiðinda krapi er á Mosfellsheiði.

Óveður er víða á Snæfellsnesi og ekkert ferðaveður. Fróðárheiði er ófær og þar er stórhríð. Á Holtavörðuheiði er hálka og óveður en snjóþekja og óveður á Bröttubrekku og á köflum í Dölum. Ófært er yfir Laxárdalsheiði og Svínadal.

Á Vestfjörðum er ekkert ferðaveður og vegir meira eða minna lokaðir og ófærir.

Óveður er í Húnavatnssýslum og Skagafirði og hált. Ófært er yfir Þverárfjall en á Vatnsskarði er hálka og óveður. Ófært er frá Hofsósi út í Fljót en síðan er Siglufjarðarvegur lokaður utan Fljóta vegna snjóflóðahættu, og Ólafsfjarðarmúli sömuleiðis. Ófært er í Héðinsfirði.  Öxnadalsheiði er ófær og þar er stórhríð.

Ófært milli Akureyrar og Dalvíkur

Víða er ofankoma á Norðurlandi eystra. Ófært er á milli Dalvíkur og Akureyrar. Þæfingsfærð er á Víkurskarði og skafrenningur, þungfært og stórhríð er á Fljótsheiði. Ófært er á Hólasandi. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Mývatnsheiði og Mývatnsöræfum.

Á Austurlandi er varað við flughálku í Jökulsárhlíð, á Hróarstunguvegi,  Borgarfjarðarvegi og eins innan Úlfsstaða.

Annars er víða hálka og éljagangur á Austurlandi en aftur á móti eru vegir auðir á Suðausturlandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert