Vegalaus maður á Akureyri

Vegalaus maður fékk að sofa úr sér á lögreglustöðinni á …
Vegalaus maður fékk að sofa úr sér á lögreglustöðinni á Akureyri í nótt. mbl.is/Gúna

Mikið af fólki var á ferðinni á Akranesi á nýársnótt, en engin slys voru á fólki og segir lögreglan að nóttin hafi gengið mjög vel fyrir sig. Á Ísafirði fékk einn maður að gista fangageymslur vegna ölvunar, en annars var rólegt í bænum. 

Á Akureyri gistu tveir einstaklingar fangageymslur. Annar þeirra gekk um og braut rúður og verður honum gerð grein fyrir framferði sínu þegar runnið hefur af honum. Hinn aðilinn var að sögn lögreglu mikið ölvaður utanbæjarmaður. Var hann „vegalaus og gat ekki gert grein fyrir náttstað sínum“. Lét lögreglan hann því sofa úr sér.

Í Vestmannaeyjum urðu engin slys á fólki. Fjögur ölvunarmál komu þó upp vegna missættis, auk þess sem maður gekk um og sparkaði í bíla og olli þar minniháttar eignarspjöllum á tveimur bifreiðum.

Sjö gistu fangageymslur á Suðurnesjunum vegna slagsmála og ölvunar. Eru málin í rannsókn en ekki hafa verið lagðar fram neinar kærur. Segir lögreglan að smá erill hafi verið í bænum og margt um manninn fram undir morgun.

Bílvelta varð rétt fyrir utan Borgarnes á Snæfellsvegi, en ísingu er kennt um. Ekki varð slys á fólki. Segir lögreglan að nokkuð hált sé á vegum og minnir ferðalanga á að fara varlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert