Þingmaður á hálum ís

Hér má sjá nýju stikuna sem starfsmaður Vegagerðarinnar setti upp …
Hér má sjá nýju stikuna sem starfsmaður Vegagerðarinnar setti upp aðeins nokkrum mínútum eftir að óhappið varð. mynd/Ragnheiður Elín Árnadóttir

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og tveir ferðafélagar hennar sluppu með skrekkinn á flughálum vegi í Suðursveit um hádegisbil í dag. Ragnheiður missti stjórn á jeppabifreið með þeim afleiðingum að bíllinn hringsnerist og hafnaði síðan utan vegar.

Engan sakaði og bifreiðin er óskemmd. Vegstika varð hins vegar undir í baráttunni í jeppabifreiðina.

„Það kom bara eins og skrattinn úr sauðaleggnum, að á marauðum vegi var allt í einu komið gler,“ segir Ragnheiður í samtali við mbl.is.

„Við sáum bílinn fyrir framan okkur byrja að dansa, þannig að þetta kom honum jafn mikið á óvart. Þannig að ég byrjaði að hægja á mér og svo réði ég ekki neitt við neitt, og hann hringsnýst og við út af. En sem betur fer og fyrir algjöra guðs mildi -  vegna þess að þetta var talsvert hár kantur - þá lendum við í einhverjum krapasnjó sem tekur fallið,“ segir Ragnheiður og bætir við að bifreiðin hafi ekki oltið heldur einfaldlega endað öfug utan vegar.

Starfsmann Vegagerðarinnar bar að í sama mund og Ragnheiður og ferðafélagar hennar unnu að því að koma bifreiðinni aftur upp á veg. „Hann segir okkur að þetta sé ekki nú ekki einsdæmi. Það væri hérna smá kafli sem við þyrftum að varast. Við útafkeyrsluna þá tók ég niður eina stiku og þjónustan hjá Vegagerðinni þarna er mjög góð. Það var komin ný stika þarna fimm mínútum eftir að óhappið varð,“ segir Ragnheiður og hlær. Hún er nú á ferðinni í Suðurkjördæmi fyrir komandi prófkjör sjálfstæðismanna sem fram fer 26. janúar nk.

Hún tekur fram að skyggni hafi verið gott og allar aðrar aðstæður sér í hag, fyrst svona þurfti að fara. „Við sluppum með skrekkinn og keyrum mjög varlega hér sem eftir er,“ segir hún og bætir við að þau hafi síðan haldið för sinni áfram.

Ragnheiður vill koma þeim varnaðarorðum til ökumanna sem séu að aka á þessum slóðum að svona flughálir kaflar geti komið fyrirvaralaust. „Sem er algjör glerísing á. Við vorum að athafna okkur þarna, þegar við vorum komin upp á veginn, þá stóðum við varla í lappirnar,“ bætir hún við. Óhappið átti sér stað skammt frá bænum Jaðri í Suðursveit, sem er um það bil miðja vegu á milli Jökulsárlóns og Hafnar í Hornafirði.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka