Vilja fund um nauðasamninga bankanna

Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður, fyrir miðju.
Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður, fyrir miðju. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa farið fram á fund í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis eins fljótt og auðið er til þess að ræða stöðu nauðasamninga föllnu bankanna. Hefur bréf þess efnis verið sent formanni nefndarinnar, Helga Hjörvar, þingmanni Samfylkingarinnar.

„Því miður tókst nefndinni ekki að klára að fara yfir málið á síðustu dögum þingsins en það er skilningur okkar að ekki verður gengið frá samningunum af hálfu Seðlabankans að svo stöddu. Að öllu óbreyttu mun meginhluti erlends gjaldeyrisvaraforðasjóðs landsmanna verða greiddur út ef að nauðasamningum verður. Gjaldeyrisvaraforðasjóðs sem að stærstum hluta er fjármagnaður af lánum með ríkisábyrgð,“ segir meðal annars í bréfi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og Péturs H. Blöndal.

Þá segir að einnig verði auðveldara fyrir kröfuhafa bankanna að fara á svig við gjaldeyrishöftin verði þeir komnir með eignarhald á bönkunum. „Seðlabankinn hefur úrslitavald í þessu máli en það er nauðsynlegt að efnahags- og viðskiptanefnd þingsins sinni laga- og eftirlitshlutverki sínu í þessu gríðarlega stóra máli. Ef gerð verða mistök, verða þau ekki aftur tekin og munu birtast í mjög alvarlegum afleiðingum fyrir íslensk heimili.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert