Úrræðaleysi við barnagirnd

Börn á gangi.
Börn á gangi. mbl.is/Brynjar Gauti

Fá sem engin úrræði eru til hjálpar einstaklingum sem haldnir eru barnagirnd. Sumir þeirra vilja gjarnan leita sér hjálpar en geta ekkert snúið sér og fá yfirleitt fyrst sálfræðihjálp þegar upp um þá kemst. Barnaverndarstofa er þó með úrræði fyrir börn yngri en 18 ára sem sýna óeðlilega kynhegðun.

Líkt og fram kom í umfjöllun Kastljóss í gærkvöldi hefur barnaníðingurinn Karl Vignir Þorsteinsson játað á sig kynferðisbrot gegn allt að 50 börnum undanfarna áratugi. Nokkur brotanna játaði hann gagnvart lögreglu fyrir nokkrum árum. Hann hefur þó aldrei fengið neina meðferð, hvorki í dóms- né heilbrigðiskerfinu. Talið er að um 1% karla sé haldið barnagirnd og er því um að ræða fámennan hóp sem þó skilur oft eftir sig langa slóð fórnarlamba.

Sumir vilja gjarnan láta af hegðuninni

„Þetta er ekki sérlega stór hópur og í sjálfu sér þyrfti ekki mikið til að setja upp eitthvert meðferðarteymi sem yrði strax framfaraskref miðað við það úrræðaleysi sem er í dag,“ segir Ólafur Örn Bragason, sálfræðingur og sérfræðingur í réttarsálfræði. Ólafur hefur frá árinu 2009 séð um meðferð fyrir ungmenni undir 18 ára aldri sem sýna óeðlilega kynhegðun, í samvinnu við Barnaverndarstofu og sálfræðingana Önnu Kristínu Newton og Þórarin Hjaltason. 

„Það er búið að taka ágætlega á þessu varðandi unglingana sem flestir eru á aldrinum 12-18 ára, en eftir stendur eldri hópurinn. Í dag er í raun og veru enginn staður sem þeir geta snúið sér til, þó að þetta sé í raun og veru heilbrigðismál. Þetta snýr auðvitað að brotahegðun en líka að kynheilbrigði. Sumir þessara einstaklinga vilja mjög gjarnan láta af þessari hegðun en þá vantar úrræði til. Það sem þarf yfirleitt til er að það komist upp um hegðunina og málið fari til rannsóknar hjá lögreglu.“

Engin eftirfylgni að loknum dómi

Í raun eru engin úrræði fyrir fullorðna nema innan veggja fangelsanna, fyrir þá sem þegar hafa hlotið dóm og það er mjög takmarkað að sögn Ólafs. Tveir sálfræðingar starfa nú fyrir Fangelsismálastofnun og sinna stækkandi hópi fanga. Engin eftirfylgni er eftir að fangar hafa afplánað dóm, jafnvel þótt þeir vilji halda áfram í sálfræðimeðferð og þeir sem fá skilorðsbundna dóma fyrir vægari kynferðisbrot fá mjög litla eða enga sálfræðihjálp.

Ólafur bendir á að þeir geti að sjálfsögðu leitað til sjálfstætt starfandi sálfræðinga en það geti reynst mörgum erfitt skref auk þess sem sálfræðiþjónusta sé ekki niðurgreidd líkt og t.d. geðlækningar og oft sé um efnalitla menn að ræða sem ráði ekki við kostnaðinn.

Kynferðisbrotaferill byrjar oft í æsku

Hjá Barnahúsi koma árlega fram milli 40-60 mál þar sem barn greinir frá því að hafa orðið  fyrir misnotkun af hálfu annars barns. Sálfræðingateymi Barnaverndarstofu sinnir hátt í 30 gerendum í slíkum málum á ári. Að sögn Ólafs er fyrsta skrefið í meðferð við óæskilegri kynhegðun ungmennis að greina hve mikil áhættan er á að hegðunin endurtaki sig.

„Rannsóknir sýna að stór hluti fullorðinna kynferðisbrotamanna byrjar brotaferil sinn í æsku. Mjög lítið hlutfall af þeim sem sýna óviðeigandi kynhegðun í æsku heldur samt áfram, en þeir sem halda áfram, þeir verða hættulegastir. Markmiðið með okkar meðferð er að koma í veg fyrir frekari brotahegðun, koma í veg fyrir að það verði fleiri þolendur.“

Beina þarf kröftum að áhættuhópnum

Ólafur segir að í hópi gerenda undir 18 ára aldri séu oft drengir sem séu að verða kynþroska og viti ekki hvað þeir eigi að gera með það. Hegðunin sé oft hluti af öðrum vanda, þroska- eða félagstengdum sem taka þurfi á. Þeir sem metnir séu í lítilli hættu á áframhaldandi brotum þurfi oft fyrst og fremst fræðslu um kynlíf, félagsfærni og afleiðingar óviðeigandi kynhegðunar á þolendur.

„En þeir sem eru í áhættuhópi um að fremja brot aftur, þangað eigum við að beina kröftum okkar.“ Hann segir ekki hægt að tala um að svo ungir gerendur séu haldnir barnagirnd heldur þróist hún með tímanum. „Það verður þegar þeir eru orðnir eldri, kannski af því að þeir hafa ekki fengið næga aðstoð þegar þeir voru ungir og segja engum frá því fyrr en upp um þá kemst.“

Stjórnvöld skuldbundin til að gera betur

Eldri gerendur þurfa að sögn Ólafs flóknari meðferð sem tekur lengri tíma. Hann segir vel hægt að sjá fyrir sér að hægt væri að setja á fót sambærilegt teymi fyrir fullorðna sem haldnir eru barnagirnd. Það jákvæða sé að mikil vitundarvakning hafi orðið með aukinni umræðu á síðustu árum, en enn sé rými til umbóta. 

Ólafur bendir á að í Lanzarote-sáttmála Evrópuráðsins, sem Ísland hefur fullgilt, er kveðið á um að aðildarríki skuli tryggja framboð á viðeigandi meðferð vegna barnagirndar, hvort sem einstaklingur hefur brotið af sér eða ekki.

„Umræðan er virk en henni þurfa líka að fylgja úrræði. Það hefur verið uppbygging á úrræðum fyrir þolendur, en við þurfum líka að beina sjónum að gerandanum.“

Ólafur Örn Bragason sálfræðingur
Ólafur Örn Bragason sálfræðingur mbl.is
Karl Vignir Þorsteinsson
Karl Vignir Þorsteinsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert