„Þetta er fullkomlega óásættanlegt“

Jón Bjarnason alþingismaður.
Jón Bjarnason alþingismaður. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Þetta er auðvitað fullkomlega óásættanlegt og gengur þvert á þær kröfur sem settar voru fram af hálfu vinstri-grænna og mér sem ráðherra að gengið yrði fyrst eftir svörum frá Evrópusambandinu um þær grundvallarspurningar hvort veittar yrðu varanlegar undanþágur frá regluverki sambandsins til að mynda fyrir sjávarútveg og landbúnað.“

Þetta segir Jón Bjarnason, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, en eins og mbl.is fjallaði um fyrr í dag hefur ákvörðun verið tekin einhvern tímann á síðasta ári um að erfiðustu kaflarnir svonefndir í viðræðunum um inngöngu Íslands í Evrópusambandið um sjávarútvegs- og landbúnaðarmál yrðu ekki teknir fyrir fyrr en í lok viðræðnanna. Forystumenn úr röðum VG hafa ítrekað kallað eftir því á kjörtímabilinu að erfiðustu kaflarnir yrðu teknir fyrir sem fyrst í viðræðunum en útlit er fyrir að það verði ekki fyrr en í lok næsta árs.

Jón bendir á að í raun sé það Evrópusambandið sem ráði ferðinni þegar kemur að viðræðunum og hvaða kaflar séu teknir fyrir og hvenær. Fyrir vikið hafi væntanlega verið um að ræða einhliða ákvörðun af hálfu sambandsins. „Hitt er svo annað mál að Evrópusambandið getur ekki hafa tekið slíka ákvörðun án þess að hafa í það minnsta haft samráð um það við ráðamenn hér á landi og látið þá vita af þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert