Þokast í rétta átt

Fulltrúar Samtaka atvinnulífsins á fundinum í morgun. Frá vinstri: Hannes …
Fulltrúar Samtaka atvinnulífsins á fundinum í morgun. Frá vinstri: Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, Vilmundur Jósefsson, formaður SA, og Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA. mbl.is/Styrmir Kári

„Á meðan við erum að halda áfram að tala saman og höfum það á tilfinningunni að við séum að færast nær því að vera sammála, þá er ég bjartsýnn á meðan,“ segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, um fund SA með ASÍ í morgun.

Hann segir að SA sé að skoða tillögur sem samninganefnd ASÍ hafi komið fram með á fundinum sem fór fram í morgun í tengslum við endurskoðun kjarasamninga sem nú stendur yfir.

„Við erum að reyna að ræða málin og þetta fer í áttina allt saman,“ segir Vilhjálmur.

Stjórn SA lýsti sig reiðubúna til viðræðna við ASÍ og landssambönd þess um að stytta samningstíma kjarasamninga um einn mánuð, til 31. desember nk., og hefja viðræður um undirbúning næstu kjarasamninga.

„Það sem hangir þarna á spýtunni er að við setjumst líka þá að því að ræða um sameiginlega atvinnustefnu og stöðugleika, og hvernig við getum skapað grundvöll fyrir því, þá í samstarfi við stjórnmálaflokkana,“ segir Vilhjálmur.

Í öðru lagi þá sé mikilvægt að menn setjist niður til að ræða við aðila hins opinbera vinnumarkaðar í þeim tilgangi að reyna að bæta vinnubrögð við gerð kjarasamninga.

Mikilvægt sé að halda vel á spilunum svo hægt sé að ganga frá nýjum samningi snemma á næsta ári. Sé allt út og suður geti viðræðurnar teygst fram til sumars „eftir einhverri atburðarás sem hvorugur okkar hefur almennilega stjórn á,“ segir Vilhjálmur.

Ríkisstjórnin búin að klúðra 2013

Aðspurður segist hann vonast til að hægt verði að mynda samstöðu með næstu ríkisstjórn um starfsskilyrði fyrirtækja og heimila.

„Ríkisstjórnin er búin að klúðra 2013,“ fullyrðir Vilhjálmur og bætir við að veigamestu þættirnir sem hafi verið forsendur kjarasamningana sem SA byggir á séu ekki að ganga eftir.

„Þau starfsskilyrði og það ástand sem við reiknuðum með að yrði eftir samstarf við ríkisstjórnina hefur allt brugðist,“ segir Vilhjálmur.

Þetta hafi fyrst og fremst snúist auknar fjárfestingar í atvinnulífinu. „Sem hefði haft í för með sér innstreymi af fjármagni á hærra gengi. Það hefði unnið gegn verðbólgunni og skapað meiri atvinnu,“ segir hann.

Þá bendir hann á að stjórnvöld hafi algjörlega snúið við blaðinu hvað varðar tryggingagjaldið. „Það hefði getað lækkað um 0,75% en lækkaði bara um 0,1%,“ segir Vilhjálmur.

Fulltrúar ASÍ og SA munu hittast aftur til að fara yfir stöðuna í fyrramálið kl. 9.

Reyna að sameinast um lausnir

Fulltrúar SA og samninganefnd ASÍ mun halda viðræðunum áfram á …
Fulltrúar SA og samninganefnd ASÍ mun halda viðræðunum áfram á morgun. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert