Fréttir af dauða viðræðnanna stórlega ýktar

Þórir Ibsen, sendiherra Íslands í Brussel.
Þórir Ibsen, sendiherra Íslands í Brussel. mbl.is/Ómar Óskarsson

Sendiráð Íslands í Brussel hefur séð sig knúið til þess að senda frá sér yfirlýsingu þar sem lögð er áhersla á að íslensk stjórnvöld hafi ekki frestað viðræðunum um inngöngu Íslands í Evrópusambandið heldur hægt á þeim.

Yfirlýsingin er send út í kjölfar frétta erlendra fjölmiðla þar sem fjallað hefur verið um yfirlýsingu íslenskra stjórnvalda fyrr í vikunni, vegna ákvörðunar þeirra um að hægja á viðræðunum, á þann hátt af ýmsum fjölmiðlum erlendis að verið væri að fresta (e. suspend) viðræðunum. Þar á meðal bandaríska dagblaðið New York Times og fréttaveitan Reuters. Er sendiráðið ekki sátt við það orðalag.

Fram kemur í tilkynningu sendiráðsins sem undirrituð er af Þóri Ibsen, sendiherra Íslands, að fréttir af dauða viðræðnanna séu stórlega ýktar og þar vitnað í fræg ummæli bandaríska rithöfundarins Marks Twains. Er síðan ítrekað að áfram verði unnið með þá kafla viðræðnanna sem opnaðir hafi verið og samningsafstaða liggi fyrir í af hálfu Íslands en kaflarnir um sjávarútvegs- og landbúnaðarmál og tveir tengdir kaflar geymdir fram yfir þingkosningar.

Fjallað er um málið á fréttavefnum Euractiv.com í dag og segir Þórir að núverandi ríkisstjórn hafi talið rétt að hægja á viðræðunum fram yfir kosningar meðal annars til þess að ekki þyrfti að taka ákvarðanir vegna þeirra rétt fyrir kosningar. Það væri ekki lýðræðislegt svo nálægt kosningunum.

Greint er frá því að Samfylkingin hafi fengið mest fylgi í kosningunum 2009 og þar með ýtt Sjálfstæðisflokknum úr stóli sem stærsti flokkur landsins. Skoðanakannanir bendi nú til þess að Sjálfstæðisflokkurinn, sem sé andvígur inngöngu í Evrópusambandið, hafi 36% fylgi en Samfylkingin 19%.

Þórir er spurður að því hvort hann telji að ný ríkisstjórn kunni að hafa meiri efasemdir um inngöngu í Evrópusambandið en núverandi stjórn, en hann segir það ekki sitt að svara því. Hins vegar standi vonir til þess að viðræðunum verði haldið áfram eftir kosningarnar.

Frétt Euactiv.com

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert