Stjórnlagafrumvarp fallið á tíma

Stjórnlagaráð að störfum.
Stjórnlagaráð að störfum. mbl.is/Golli

Þingflokkur framsóknarmanna telur að stjórnarskrármálið í heild sé fallið á tíma og komist ekki í gegnum Alþingi á þessu kjörtímabili nema samstaða náist um nokkrar mikilvægar greinar. Leggur flokkurinn áherslu á ákvæði um náttúruauðlindir og aukið beint lýðræði. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá þingflokkinum í dag.

Framsóknarmenn segja að sjá megi af skriflegum og munnlegum álitum sérfræðinga að áhrif margra greina stjórnarskrárfrumvarpsins og greinargerðarinnar séu mjög óljós. Ekkert mat hafi farið fram á áhrifum frumvarpsins á stjórnskipan landsins og réttindi borgaranna. „Þingflokkurinn áréttar að þegar um er að ræða breytingar á grundvallarlögum ríkisins er mikilvægt að Alþingi gangi ekki þvert á álit sérfræðinga,“ segir í yfirlýsingunni.

Einungis 23 þingfundadagar eru nú eftir á kjörtímabilinu. Þingflokkur framsóknarmanna segir að skynsamlegast sé að fulltrúar allra flokka á Alþingi nýti þann litla tíma sem eftir er til að ná samstöðu um nokkrar mikilvægar greinar stjórnarskrárfrumvarpsins. Samráðið felist í því að tveir fulltrúar hvers flokks myndi samráðshóp sem hefji þegar í stað formlegar viðræður um það hvaða greinar er mögulegt að ná samstöðu um og afgreiða fyrir þinglok.

„Þingflokkur framsóknarmanna leggur áherslu á ákvæði um náttúruauðlindir og aukið beint lýðræði en er opinn fyrir því að skoða fleiri ákvæði í þessu sambandi,“ segir í yfirlýsingu flokksins. Þingflokkurinn telur einnig að samráðshópurinn eigi að freista þess að leggja höfuðlínur um hvernig skuli halda á málum á komandi kjörtímabili svo öll undirbúningsvinnan við stjórnarskrárbreytingarnar nýtist sem best.

Þingflokkur framsóknarmanna leggur til að formlegar viðræður hefjist strax á morgun, þriðjudaginn 22. janúar 2013.“

Gunnar Bragi Sveinsson er þingflokksformaður Framsóknarflokksins.
Gunnar Bragi Sveinsson er þingflokksformaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert