Evrópumálin voru fyrirferðarmikil

Landsfundi Samfylkingarinnar lauk í dag á fjórða tímanum með dynjandi lófaklappi í kjölfar ræðu nýkjörins formanns flokksins, Árna Páls Árnasonar, en ræða hans markaði hápunkt dagsins.

Þeir fundarmenn sem blaðamaður náði tali af voru sammála um að fundurinn hafi verið vel heppnaður og þau tíðindi urðu á fundinum að Jóhanna Sigurðardóttir lét af embætti formanns og er, eins og áður hefur komið fram, á útleið úr pólitík eftir rúma þrjá áratugi sem þingmaður og ráðherra.

Arftaki hennar fékk mjög góða kosningu, ríflega sextíu prósent, í keppni við Guðbjart Hannesson, velferðarráðherra, um embættið. Nýr varaformaður var einnig kjörinn á fundinum. Kosið var á milli Katrínar Júlíusdóttur og Oddnýjar G. Harðardóttur og hafði sú fyrrnefnda erindi sem erfiði og fékk einnig góða kosningu eða um 59% greiddra atkvæða.

Stríð boðað og stríðsöxin grafin

Jóhanna Sigurðardóttir hélt sína síðustu ræðu sem formaður Samfylkingarinnar á föstudag og sagði þar að í komandi kosningum væri „stóra stríðið“ á milli Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Árni Páll Árnason var vart stiginn í ræðustólinn sem nýkjörinn formaður þegar hann fór að tala um að draga bæri úr stríðsrekstri í íslenskum stjórnmálum og boðaði aukið samstarf og sátt. Hann boðaði í raun bætt vinnubrögð í stjórnmálum.

Mikil umræða um lagabreytingar en minni um stjórnmál

Á fundinum sjálfum fór ekki mikil umræða fram um stjórnmál meðal landsfundarfulltrúa. Hún virðist hafa farið fram á lokuðum nefndarfundum. Sem dæmi bað enginn um orðið til að ræða um stjórnmálaályktun þegar hún hafði verið kynnt. Hinsvegar fór fram töluverð umræða um lagabreytingar og fengu þar tillögur um nafn flokksins og um félagsgjöld mikla umræðu. Ofan á varð að breyta nafni flokksins í „Samfylkingin – Jafnaðarmannaflokkur Íslands“ – en tillaga um að „Jafnaðarflokkur Íslands“ yrði bætt við var felld. Að sama skapi var tillaga um að skylda flokksmenn til greiðslu félagsgjalds felld, en eftir situr að hverju félagi er það í sjálfsvald sett.

Sem fyrr voru Evrópumál fyrirferðamikil hjá Samfylkingunni og ályktað að hagsmunum Íslands væri best borgið innan sambandsins og að það ætti að vera í forgangi eftir kosningar að halda vegferðinni inn í Evrópusambandið áfram. Ályktað var að EES samningurinn myndi ekki duga þjóðinni til framtíðar  og að samningurinn nálgaðist nú þolmörk gagnvart innlendri stjórnskipan.

Evrópumál voru raunar hátt skrifuð í stjórnmálaályktun og koma nú næst á eftir velferðarmálunum. Atvinnumálin koma svo á eftir Evrópumálunum.

Nýtt forystufólk kosið í helstu embætti

Auk nýs formanns og varaformanns kaus landsfundur nýjan formann framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, en Margrét S. Björnsdóttir gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Margrét K. Sverrisdóttir var kjörin í hennar stað með 64% kosningu en mótframbjóðandi hennar var Soffía Sigurðardóttir.

Það var almennt létt yfir fundarmönnum þrátt fyrir að skoðanakannanir síðustu daga bendi til að flokkurinn sé í mikilli lægð og mælist sem dæmi 15,8% samkvæmt nýjustu Gallup-könnun.

Um 1.100 flokksmenn áttu seturétt á fundinum þó allir hafi ekki nýtt þann rétt. Sem dæmi kusu einungis 524 í kjörinu til varaformanns og einungis 246 fundarmanna í kjörinu til formanns framkvæmdastjórnar, eða 22% þeirra sem höfðu kosningarétt.

Í lok stjórnmálaályktunarinnar segir að Samfylkingin – Jafnaðarmannaflokkur Íslands bjóði fram krafta sína til forystu í næstu ríkisstjórn og samstarfs um að halda áfram uppbyggingu betra þjóðfélags á grunni jafnaðarstefnunnar á næsta kjörtímabili.

Stjórnmálaályktun flokksins má finna hér að neðan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert