Hafnaði því að stjórnast af hótunum

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn

Framganga stjórnarmeirihlutans á Alþingi vegna frumvarps að nýrri stjórnarskrá stýrist ekki af hótunum frá þingmönnum Hreyfingarinnar. Þetta sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, á Alþingi í dag í svari við fyrirspurn frá Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins.

Bjarni óskaði eftir skýringum frá forsætisráðherra á því hvernig stjórnarmeirihlutinn hefði í hyggju að halda á málinu. Sagði hann framgöngu meirihlutans í þeim efnum óskiljanlega. Keyra ætti málið áfram þvert á ráðleggingar sérfræðinga og nú síðast Feneyjanefndar Evrópuráðsins. Ekki hafi þurft annað en eina litla hótun frá Hreyfingunni um vantraust á ríkisstjórnina til þess að setja stjórnarmeirihlutann í uppnám.

Jóhanna sagði að einfaldlega væri unnið að málinu samkvæmt þjóðarvilja og vísaði til þjóðaratkvæðagreiðslunnar um stjórnarskrármálið síðastliðið haust. Tekið hefði verið tillit til athugasemda sérfræðinga. Þegar hefði verið tekið á ýmsu sem Feneyjanefndin hefði gert athugasemdir við og annað, sem sneri að stjórnskipunarmálum, yrði að skoða sérstaklega. Sagðist hún vona að málið yrði klárað á þessu þingi.

Bjarni sagði að sér féllust hendur að ræða um stjórnarskrármálið við stjórnarliða og ítrekaði gagnrýni sína á að vinnubrögð stjórnarmeirihlutans. Keyra ætti málið í gegn og hunsa athugasemdir við það. Forsætisráðherra svaraði því til að það skipti engu máli þó málið yrði rætt fram á sumar. Það myndi ekki skila neinu enda vildu sjálfstæðismenn halda öðruvísi á málinu og vonuðust til þess að komast í aðstöðu til þess að loknum kosningunum í vor.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert