Mannréttindi að spila netpóker?

Netpóker nýtur mikilla vinsælda.
Netpóker nýtur mikilla vinsælda. Mynd/pkr.com

Mögulegar takmarkanir innanríkisráðherra á aðgangi að óæskilegu efni á netinu eru afar stefnumótandi, að mati Póst- og fjarskiptastofnunar. Mikil umræða hafi farið fram á alþjóðlegum vettvangi um stjórnsýslu netsins en hana hafi skort hér á landi og þingmenn þurfi að leggja mat á ýmis álitaefni tengd málaflokknum.

Fyrir Alþingi liggur frumvarp innanríkisráðherra um breytingar á lögum um happdrætti. Í frumvarpinu er meðal annars gert ráð fyrir að lokað verði fyrir greiðsluþjónustu við erlend vefsvæði sem bjóða upp á happdrætti ýmiskonar, en algengt er að þeir sem spila á slíkum vefsvæðum greiði með greiðslukortum.

Fyrsta umræða um frumvarpið hefur þegar farið fram og er málið til meðferðar hjá allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis. Á fund nefndarinnar í morgun komu fjölmargir umsagnaraðilar, meðal annars fulltrúar frá Póst- og fjarskiptastofnun.

Póst- og fjarskiptastofnun taldi tilefni til að víkja nokkrum orðum í umsögn sinni að tengslum frumvarpsins við sameiginlegt evrópskt regluverk á sviði fjarskipta. Í umsögninni segir að finna megi ítarlegan rökstuðning fyrir því að ekki sé brotið gegn EES-rétti með banni við greiðsluþjónustu. Til stuðnings því sé vísað í tiltekna dóma Evrópudómstólsins um að bannið brjóti ekki gegn meginreglu um þjónustufrelsi. Það sé þó ekki nægilegur rökstuðningur.

Of mikið framsal lagasetningarvalds?

Ekki er að sama skapi farið yfir dóma hvað varðar mögulega takmörkun á persónu- og athafnafrelsi einstaklinga þegar kemur að þeim skilyrðum sem áformað er að setja varðandi netspilun, séu slíkir dómar fyrir hendi og teljist vera fordæmisgefandi í þessu samhengi.

Samkvæmt nýlegri Evrópulöggjöf telst aðgangur að netinu, auk efnis og þjónustu sem þar er að finna, til grundvallarmannréttinda samkvæmt Mannréttindasáttmála Evrópu,“ segir í umsögninni.

Það þýði að skerðing á aðgengi þurfi að uppfylla ströng skilyrði Mannréttindasáttmálans, til dæmis að hún sé nauðsynleg í lýðræðislegu samfélagi og byggist á lögum. „[Því má velta] fyrir sér hvort framsal mats á því til ráðherra, samkvæmt reglugerðarheimild, hvaða leikir eða happdrætti, fjöldi þeirra og tegundir skuli vera háð leyfum, feli í sér of mikið framsal lagasetningarvalds og fái þar með ekki samrýmst meginreglunni um lagaáskilnað vegna takmörkunar á grundvallarréttindum einstaklinga.“

Stofnunin telur rétt að allsherjar- og menntamálanefnd, og þá þingmenn, leggi mat á þetta álitaefni og skoði þá umræðu sem verið hefur á alþjóðlegum vettvangi um stjórnsýslu netsins sem, þar á meðal um það með hvaða hætti stjórnvöld megi takmarka aðgang almennings að tilteknu óæskilegu efni á Internetinu.

Mögulegar takmarkanir á aðgangi að óæskilegu efni á netinu eru því að mati stofnunarinnar afar stefnumótandi og ætti því, ef vel væri, að styðjast við lifandi almenna þjóðfélagsumræðu um þennan mikilvæga málaflokk og taka tillit til þróunar á inntaki persónu- og tjáningarfrelsis í evrópskum rétti.“

Gagnleg vinna og upplýsandi umræða

Björgvin G. Sigurðsson, formaður allsherjar- og menntamálanefndar, sagði í samtali við mbl.is eftir fundinn í morgun að hann taki undir sumt af því sem fram kemur í umsögn Póst- og fjarskiptastofnunar og fulltrúar stofnunarinnar fóru yfir á fundinum, ekki síst það að skort hafi á umræðu um þetta mál hér á landi.  „Það er sjálfsagt að taka umræðuna um hvort það sé hægt að nota svona tæknilegar hindranir til að koma í veg fyrir að menn spili fjárhættuspil á erlendum vefsvæðum eða börn geti séð klám. Ég tek undir það, að þetta þarf að ræða og fara mjög vandlega ofan í. Það eru mjög misvísandi skilaboð um hvað er hægt að gera og hverju er hægt að stýra.“

Burtséð frá öðru, segir Björgvin að það sé löggjafans að leita leiða til að framfylgja banni, og það sem er ólöglegt að lögum er ólöglegt, þó svo sumt sé kannski óraunhæft. „Fundurinn í morgun sneri meira um hvort [greiðslumiðlunarbann] sé fær leið til að banna athæfi sem er ólöglegt nú.“

Samkvæmt starfsáætlun Alþingis eru ellefu þingfundir eftir þar til þingi verður frestað. Björgvin treystir sér ekki til að meta hversu miklar líkur eru á því að málið verði afgreitt fyrir þinglok. „Við erum í miðju kafi og óhætt að segja að þetta sé mjög umdeilt mál. En nefndin mun gera sitt besta við að ljúka sinni vinnu og þá sjáum við hvernig það stendur í nefndinni. En við eigum eftir að sjá til lands í þessu.“

Hann segir hins vegar að umræðan sé af hinu góða. „Það er hægt að staðhæfa eitt, þetta er mjög gagnleg yfirferð. Hvort sem okkur tekst að klára þetta í þessari lotu eða ekki er þetta mjög gagnleg vinna sem fer fram og mjög upplýsandi.“

Þrjú þúsund möguleikar í boði 

Í greinargerð sem unnin var fyrir allsherjar- og menntamálanefnd kemur fram að árið 2011 voru rúmlega þrjú þúsund fyrirtæki sem buðu veðmál og peningaspil á netinu. Sama ár veltu peningaspil 84.9 milljörðum evra innan ESB, þar af var hlutur netspila 8.5 milljarðar evra og hafði árlega vaxið um 14% árin á undan.

Þar segir einnig að framkvæmd greiðslumiðlunarbannsins verði eftir því sem best verði séð þannig háttað að bankar sem gefa út kreditkort loki fyrir viðskipti við happdrættisfyrirtæki sem ekki hafa rekstrarleyfi á Íslandi. „Ekki er gert ráð fyrir neinu eftirliti með banninu, né skráningum á færslum. Bannið á ekki að hefta starfsemi greiðslumiðlunarfyrirtækja á neinn hátt,“ segir í greinargerðinni.

Þá er farið yfir aðgerðir sem Evrópuríki hafa gripið til, t.d. að skilyrða framboð á netspilun við opinber rekstrarleyfi eða gefa út eitt eða fleiri einkaleyfi sem ýmist byggja á ríkiseinokun eða einkarekstri. Þá hafi nokkur farið þá leið að opna markaðinn fyrir fyrirtæki sem sækja um rekstrarleyfi.

„Þessar mismunandi leiðir hafa m.a. leitt til þess að ESB treystir sér ekki til að gefa út ESB-reglur um peningaspilamarkaðinn heldur viðurkennir rétt einstakra aðildarríkja til að tryggja heill þegna sinna með sértækum reglum að uppfylltum tilteknum skilyrðum af hálfu ESB.

[...]

Að gera ekki neitt er ekki kostur fyrir stjórnvöld í stöðunni. Þeim ber að vernda þegnana fyrir óprúttnum fyrirtækjum og tryggja þegnunum að sama skapi aðgang að öruggum spilamöguleikum á meðan undanþágur frá banni við peningaspilum eru í gildi,“ segir svo í greinargerðinni.

Sumar erlendar pókersíður bjóða upp á íslenskt viðmót.
Sumar erlendar pókersíður bjóða upp á íslenskt viðmót. Skjáskot/Pokerstars.com
Einnig er hægt að spila netpóker í símanum.
Einnig er hægt að spila netpóker í símanum. Mynd/Pokerstars.com
Skjáskot af vefsvæði Betsson. Þar má spila póker, fara í …
Skjáskot af vefsvæði Betsson. Þar má spila póker, fara í rúllettu og fleiri fjárhættuspil. Skjáskot/Betsson.com
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert