Hlutverk sveitarfélaga í aðildarferlinu til umræðu

Fyrsti fundur sameiginlegrar ráðgjafarnefndar Íslands og Svæðanefndar Evrópusambandsins verður haldinn mánudaginn 4. mars í borgarstjórnarsal Ráðhúss Reykjavíkur. Fundurinn, sem er öllum opinn, mun fjalla um hlutverk og þátttöku íslenskra sveitarfélaga í aðildarferlinu og í evrópskum byggðamálum ef til aðildar kemur. Jón Gnarr borgarstjóri og Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra flytja opnunarávörp. Fundurinn stendur frá kl. 10-15.

Aðalmarkmiðið með stofnun nefndarinnar er að koma á tengslum milli íslenskra sveitarfélaga og Svæðanefndar ESB vegna aðildarumsóknar Íslands að sambandinu, segir í fréttatilkynningu.

 Hliðstæðar nefndir hafa þegar tekið til starfa á milli Alþingis og Evrópuþingsins og á milli aðila vinnumarkaðarins og þriðja geirans á Íslandi og Félagsmálanefndar Evrópu.

Halldór Halldórsson formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga fer með formennsku í nefndinni af hálfu Íslands en af hálfu ESB fer hin ítalska Mercedes Bresso með formennsku en hún var áður forseti borgarráðs Tórínó. 

 Sveitarstjórnarstigið er það stjórnsýslustig sem stendur næst íbúum og vægi þess innan ESB hefur aukist jafnt og þétt síðustu ár. Í Svæðanefndinni eiga sæti kjörnir fulltrúar úr sveitarfélögum og héruðum í aðildarríkjum ESB. Hún er umsagnaraðili um alla stefnumótun og löggjafartillögur ESB sem snerta sveitarfélög og héruð en talið er að það eigi við um allt að 70% af löggjöf ESB. Meginhluti þessarar löggjafar er innleiddur hér á landi í gegnum EES-samninginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert