Engar vanefndir vegna sölu Símans

Katrín Júlíusdóttur, fjármála- og efnahagsráðherra.
Katrín Júlíusdóttur, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

„Ráðuneytinu er ekki kunnugt um neinar vanefndir af hálfu kaupenda. Frávik frá efni upphaflegs kaupsamnings hafa verið með samþykki ráðuneytisins,“ segir í svari Katrínar Júlíusdóttur, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn frá Margréti Tryggvadóttur, þingmanni Hreyfingarinnar,  varðandi sölu ríkisins á Símanum árið 2005.

Margrét spurði að því hvort staðið hefði verið í einu og öllu við gerðan kaupsamning af hálfu kaupenda fyrirtækisins. „Ef ekki, hvaða skýringar gáfu kaupendur og hver varð staða þeirra gagnvart seljanda í kjölfarið?“ Hún spurði einnig hvort kaupendur hefði í einhverjum tilfellum haldið eftir eignum án þess að greiða fyrir þær.

„Kaupverð samkvæmt kaupsamningi var greitt. Kaupendur greiddu fyrir allar þær eignir sem þeir fengu afsal fyrir. Í einhverjum tilvikum fékk félagið tímabundin afnot af landi ríkisins vegna þegar starfræktra fjarskiptamannvirkja og fjarskiptamastra á meðan þau eru nýtt með þeim hætti,“ segir í svari ráðherrans við þeirri spurningu.

Þá spurði þingmaðurinn um umsamið kaupverð og hversu mikið af því hafi verið greitt. Sömuleiðis hvenær greiðslur hafi borist og í hvaða formi þær hafi verið. Í svarinu segir að söluverðið samkvæmt kaupsamningi hafi verið 66,7 milljarðar króna sem hafi átt að greiða í þremur tilgreindum gjaldmiðlum.

„Söluandvirðið var greitt í þremur gjaldmiðlum hinn 6. september 2005, þ.e. 34.506 milljónir ísl. kr., 310 milljónir evra (23.870 milljónir ísl. kr.) og 125 milljónir bandaríkjadala (7.717 milljónir ísl. kr.). Söluandvirðið var lagt inn á reikninga í Seðlabankanum,“ segir ennfremur í svarinu.

Svar fjármála- og efnahagsráðherra

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert