Davíð laus úr fangelsi í Tyrklandi - verður í farbanni til 25. apríl

Davíð Örn Bjarnason.
Davíð Örn Bjarnason. mbl.is

Davíð Örn Bjarnason, sem hefur verið í fangelsi í Tyrklandi síðan á föstudaginn vegna ásakana um smygl á fornmunum, hefur verið leystur úr haldi. Hann verður í farbanni til 25. apríl, en þá verður mál hans tekið fyrir.

„Mér er auðvitað létt að hann sé laus úr haldi, en málið er auðvitað ekki búið,“ segir Þóra Birgisdóttir, sambýliskona Davíðs Arnar. „Réttarhöldin eru auðvitað eftir.“

Þóra ræddi við Davíð í síma í morgun. Hún segist ekki vita hvar hann muni halda til fram að þessum tíma, en starfsmaður íslensku utanríkisþjónustunnar er nú staddur í Antalya, þar sem Davíð var í haldi, og hafði milligöngu um að Davíð var látinn laus.

Hún segir ekki liggja fyrir hvort hún muni fara út til Davíðs, það muni koma fljótlega í ljós.

Davíð og Þóra voru í fríi í Tyrklandi þar sem hann keypti marmarastein á markaði. Hann stóð í þeirri trú að honum væri heimilt að fara með hann úr landi, enda hafði enginn varað hann við slíkum kaupum.

Á flugvellinum, er þau hugðust fara heim, urðu tollverðir varir við steininn í farangri þeirra, farið var með þau á lögreglustöð og Davíð handtekinn, en Þóru leyft að fara úr landi til Svíþjóðar þar sem hún er búsett.

Þau Stefán Hrafn Ólafsson og Ósk Ágústsdóttir hafa stofnað styrktarreikning til handa Davíð Erni og unnustu hans. Þau benda áhugasömum á reikningsnúmerið 0322-13-129886 og kennitalan er 101281-3969.

Davíð Örn Bjarnason og Þóra Birgisdóttir.
Davíð Örn Bjarnason og Þóra Birgisdóttir.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert