Carl Bildt setur norðurslóðaráðstefnu

Carl Bildt.
Carl Bildt. AFP

Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands opnar nýtt rannsóknasetur um norðurslóðir með því að bjóða til alþjóðlegrar ráðstefnu um áskoranir og tækifæri á norðurslóðum á Hótel Sögu 18.-19. mars.

Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, er væntanlegur til landsins til að taka þátt í ráðstefnunni og opnar hana formlega ásamt Össuri Skarphéðinssyni, mánudaginn 18. mars kl. 18.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Alþjóðamálastofnun.

Nýja rannsóknasetrinu (Centre for Arctic Policy Studies – CAPS) er ætlað að vera vettvangur fyrir þverfaglegt samstarf á sviði norðurslóðarannsókna með áherslu á hlutverk og stefnu ríkja, stofnana og óopinbera aðila í stjórnarháttum, menningu og samfélagi á norðurslóðum.

Nýja rannsóknasetrið mun leita eftir samstarfi við aðra íslenska háskóla, íslensk og erlend rannsókna- og fræðasetur á sviði norðurslóðarannsókna, og við sérfræðinga í opinbera geiranum og einkageiranum á Íslandi og víðar. Til að mynda er samstarf við nýstofnað Norðurslóðanet Íslands á Akureyri í burðarliðnum.

Nýráðinn forstöðumaður Rannsóknaseturs um norðurslóðir er Dr. Kristinn Schram þjóðfræðingur, nýdoktor hjá Eddu - öndvegissetri og Reykjavíkurakademíunni og fyrrum forstöðumaður Þjóðfræðistofu. Þá hefur Margrét Cela, alþjóðastjórnmálafræðingur og doktorsnemi í alþjóðasamskiptum, verið ráðin verkefnisstjóri setursins.

Í tengslum við opnun rannsóknasetursins verður haldin alþjóðleg ráðstefna um áskoranir og tækifæri á norðurslóðum á Hótel Sögu, 18. og 19. mars. Fjölmargir erlendir og íslenskir fræðimenn og sérfræðingar, þar á meðal frá Kína, Rússlandi, Kanada, Noregi og Bandaríkjunum, taka þátt í ráðstefnunni.

Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, sem hýsir nýja rannsóknasetrið, og Friðarrannsóknastofnunin í Stokkhólmi (SIPRI), skipuleggja ráðstefnuna með aðkomu utanríkisráðuneyta Íslands og Svíþjóðar. Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, og starfsbróðir hans, Össur Skarphéðinsson, opna ráðstefnuna kl. 18 mánudaginn 18. mars í salnum Kötlu á Hótel Sögu (2. hæð).

Ráðstefnan sjálf fer fram daginn eftir frá kl. 9:00-18:00 og mun Carl Bildt einnig taka þátt í ráðstefnunni þann daginn. Meðal annars verður fjallað um efnahagsmál á norðurslóðum, umhverfismál, auðlindir og fiskveiðar. Dagskrá ráðstefnunnar má finna á heimasíðu Alþjóðamálastofnunar, www.ams.hi.is. Ráðstefnan er öllum opin.

Í tengslum við ráðstefnuna stendur nýja rannsóknasetrið í samstarfi við Nexus (Rannsóknavettvang um öryggis- og varnarmál) fyrir meistara- og doktorsnema málstofu, með þátttöku nema frá íslenskum og norskum háskólum, þar sem þeim gefst færi á að kynna rannsóknir sínar sem snúa að norðurslóðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert