„Enginn vilji til að finna lausn á málinu“

Birgitta Jónsdóttir, alþingismaður.
Birgitta Jónsdóttir, alþingismaður. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, segir engan vilja hjá formönnum stjórnarflokkanna til þess að finna lausnir á stjórnarskrármálinu. Hún hafi reynt að ræða við bæði Árna Pál Árnason, formann Samfylkingarinnar, og Katrínu Jakobsdóttur, formann Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, en án árangurs.

Birgitta segir á Facebook-síðu sinni í dag að það sé „enginn vilji til að finna lausn á málinu.“ Hún hafi reynt að fá Árna Pál til þess „að koma til móts við t.d. þá kröfu að þingið afgreiði mannréttindakaflann og þau ákvæði sem spurt var sérstaklega að í þjóðaratkvæðagreiðslu.“ Viðbrögð hans hafi verið að tala ekki við hana og ræða aðeins við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, og Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Framsóknarflokksins, sem hún kallar „silfurskeiðarbandalagið“.

„Þá hefur Katrín ekki heldur haft samband til að reyna að finna flöt á samvinnu. Það finnst mér bera vott um enn meiri rörsýni en Jóhanna var jafnan sögð hafa,“ segir hún að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert