Græðgin í fararbroddi við Austurvöll

Austurvöllur er jafnan þéttsetinn á blíðviðrisdögum. Nú stendur til að …
Austurvöllur er jafnan þéttsetinn á blíðviðrisdögum. Nú stendur til að reisa hótel á Landsímareitnum við vesturenda vallarins. mbl.is/Golli

„Á hverjum einasta degi kemur til okkar fólk á öllum aldri sem hefur miklar áhyggjur af miðborg Reykjavíkur,“ segir Halla Bogadóttir talsmaður BIN-hópsins svo nefnda, sem hefur beitt sér gegn fyrirhuguðum aðgerðum við Austurvöll og Ingólfstorg. Hópurinn segir breytta tillögu á reitnum litlu betri en þær fyrri.

Reiturinn sem um ræðir afmarkast Reiturinn sem um ræðir er milli Ingólfstorgs, Austurvallar og Fógetagarðs og afmarkast af Aðalstræti, Vallarstræti, Thorvaldsensstræti og Kirkjustræti. Í lok febrúar var fjórða tillagan lögð fram að uppbyggingu á reitnum en BIN-hópurinn (Björgum Ingólfstorgi og Nasa) er þeirrar skoðunar að enn sé farið offari líkt og þremur eldri tillögum sem áður var mótmælt.

Hagsmunir borgarbúa ekki leiðarljósið

Hagsmunir Reykvíkinga við uppbyggingu miðborgarinnar eru ekki hafðir að leiðarljósi í tillögunni heldur látnir víkja fyrir græðgi, að mati BIN-hópsins. Um 17000 manns mótmæltu deiliskipulaginu eins og það var lagt fram á síðasta ári, á síðunni ekkihotel.is, og Halla segir að ekkert tillit sé tekið til þeirra mótmæla í nýju tillögunni.

„Það er greinilegt að unnið er að hugmyndum lóðarhafa, í stað þess að finna þessu skipulagi sem svo margir eru óánægðir með í annan farveg og skoða miðborgina sem almenningseign. Það er það sem við viljum ítreka, að þetta á að vera svæði fyrir okkur,“ segir Halla.

Hópurinn geldur varhug við þeirri miklu hótelvæðingu sem sé í miðborginni. „Það er mikil umferð sem fylgir hótelum og hún mun vera þarna beint fyrir framan Alþingishúsið og Austurvöll, á okkar heilögustu reitum,“ segir Halla.

Helstu gallar tillögunnar eru að mati BIN-hópsins þessir:

1. INGÓLFSTORG

Fyrirhugaðar nýbyggingar við sunnanvert Ingólfstorg eru ekki í stíl við þau gömlu hús sem þar eru fyrir, og annars staðar við torgið, þrátt fyrir að svo eigi að vera samkvæmt Þróunaráætlun miðborgarinnar. Nýbyggingum í allt öðrum stíl er troðið milli gömlu húsanna svo ekki gengur hnífur á milli, auk þess sem nýbyggingarnar eru hærri en gömlu húsin og gnæfa yfir þau.

2. NASASALURINN

Nasasalinn ber að friða vegna sögu hans og einstæðrar hönnunar. Húsafriðunarnefnd var þeirrar skoðunar þangað til hún kúventi í afstöðu sinni vegna þrýstings frá eiganda hússins. Það er menningarlegt skemmdarverk að rífa þetta gamla og góða samkomuhús okkar Reykvíkinga. Fjölnota hótelsalur á sama stað kemur ekki í staðinn fyrir Nasasalinn.

3. AUSTURVÖLLUR

Ofan á Landsímahúsið við Austurvöll á að setja kvisti sem skemma þessa sögufrægu byggingu Guðjóns Samúelssonar og auka skuggavarp á Austurvöll. Einnig á að rísa aftan við gamla Kvennaskólann (innganginn að Nasa) há bygging sem bera mun litla græna húsið ofurliði og auka enn skuggavarp inn á Austurvöll.

4. KIRKJUSTRÆTI

Í tillögunni er gert ráð fyrir nýbyggingu sem framlengir Landsímahúsið alveg að gangstéttinni við Kirkjustræti – með enn meira skuggavarpi inn á Austurvöll. Þessi stóra viðbygging mun loka þeirri fallegu sýn sem er milli Fógetagarðsins og Austurvallar – tveggja dýrmætra og söguríkra almenningsrýma. Í staðinn kæmi mjó gata sem þrengdi mjög að húsum Alþingis við Kirkjustræti.

5. UMFERÐAMÁL

Í þessari tillögu er augunum vandlega lokað fyrir þeim vandamálum sem eru í uppsiglingu á svæðinu þegar þar verður risið eitt stærsta hótel í Reykjavík til viðbótar þeim sem þarna eru fyrir. Vandamálin snúa ekki síst að umferð, rútubíla, leigubíla og jeppa ferðaþjónustuaðila, svo ekki sé talað um sorphirðu og aðdrætti sem risastórt hótel þarf á að halda.

Halla segir BIN-hópinn vilja hvetja fólk til að vera vakandi yfir þróuninni og fylgjast með. „Margir spyrja okkur hvar málið standi og hver sé þróunin og framvindan. Nú er boltinn hjá skipulagsráði og það er ekki búð að taka endanlega ákvörðun um þetta svæði þannig að við viljum hvetja fólk til að fylgjast með skipulagsráði og hvaða tillögur koma fram.“

Greinargerð Reykjavíkurborgar um breytt deiliskipulag á Landsímareit

Horft frá Alþingishúsinu yfir Austurvöll og að nýju byggingunni sem …
Horft frá Alþingishúsinu yfir Austurvöll og að nýju byggingunni sem rís fyrir framan Landsímahúsið. Þar eru nú bílastæði. Yfirbragð nýbygginganna er í gömlum stíl en engu að síður eru þær nútímalegar. Þak Landsímahússins hækkar lítillega; svokölluðu mansardþaki með kvistum er bætt ofan á en það kallast á við áþekkt þak á Hótel Borg hinum megin við torgið. Á hluti þaksins er gert ráð fyrir þakgarði eða svölum.
Horft yfir Kvosina til suðurs. Á þessari mynd sést einkar …
Horft yfir Kvosina til suðurs. Á þessari mynd sést einkar vel hvernig nýbyggingarnar munu líta út við torgin þrjú.
Loftmynd úr austri. Nýjar byggingar kallast á við gömlu húsin …
Loftmynd úr austri. Nýjar byggingar kallast á við gömlu húsin og hæð bygginga í grenndinni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert