Vilja Bakka fremst á dagskrána

Kristján Þór Júlíusson í ræðustóli Alþingis.
Kristján Þór Júlíusson í ræðustóli Alþingis. mbl.is/Ómar

Kristján Þór Júlíusson og Tryggvi Þór Herbertsson, þingmenn Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, hafa lagt fram dagskrártillögu á Alþingi um að á næsta þingfundi verði frumvörp um kísilver á Bakka og uppbyggingu innviða sett fremst á dagskrána. Hlé hefur verið gert á þingfundi til kl. 16, þar sem reynt er að ná samkomulagi um þingstörfin framundan.

Tillöguna leggja þeir Kristján og Tryggvi fram skv. 77. grein þingskaparlaga. Óska þeir eftir að tillagan verði borin undir atkvæði fyrir lok þess þingfundar, sem nú hefur verið frestað.

„Það er verið að reyna að ná einhverjum sáttum um þingstörfin. Þessi mál um Bakka hafa orðið hornreka í dagskrá þingsins, það er brýnt að koma þeim til afgreiðslu og í raun ekki hægt að sitja lengur undir þessum skrípaleik að hálfu stjórnarflokkanna, hvernig farið er með þessi mál," segir Kristján Þór en kísilverið hefur færst stöðugt aftar á dagskrá þingsins, var síðast nr. 25 og 26 á málaskránni.

Óeining virðist vera uppi milli stjórnarflokkanna um málefni Bakka, en eins og kom fram í Morgunblaðinu í dag setja nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar það skilyrði fyrir stuðningi við Bakka að náttúruverndarfrumvarpið nái í gegn á þessu þingi. Einnig hefur verið uppi krafa um það að jafnræðis verði gætt við ívilnanir stjórnvalda við kísilver á Bakka og álver í Helguvík.

Uppfært kl. 16:

Þingfundur átti að hefjast á ný kl. 16 en því hefur verið frestað til kl. 17, samkvæmt vef Alþingis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert