Ítrekað reynt að laumast um borð

Frá athafnasvæði Eimskip
Frá athafnasvæði Eimskip Af vef Eimskip

Frá byrjun ágúst 2012 hafa komið upp 41 mál þar sem einstaklingar reyna að gerast laumufarþegar um borð í skipum sem sigla til Ameríku. Sum brotanna varða kærur á hendur sömu einstaklingunum sem hafa gert ítrekaðar tilraunir til að gerast laumufarþegar.

Þetta kemur fram í svari innanríkisráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur, þingmanns Framsóknarflokks. Í svarinu segir að tvö þessara mála eru enn í rannsókn, fimmtán bíða afgreiðslu og þar af þrjú sem vitað er að verða felld niður þar sem einstaklingurinn sem í hlut á er kominn úr landi. Þá hefur rannsókn verið hætt í átján málum þar sem einstaklingarnir sem um ræðir eru farnir úr landi. Tvö mál hafa verið send ríkissaksóknara og þrjú til lögreglustjórans á Suðurnesjum.

Siglingastofnun Íslands verið í samskiptum við bandarísku strandgæsluna vegna þessara mála og lauk þeim með bréfi strandgæslunnar til Siglingastofnunar, dags. 20. febrúar sl. „Þessi samskipti báru þann árangur að bandaríska strandgæslan hefur lýst því formlega yfir í bréfi til Siglingastofnunar að hún sjái ekki ástæðu til að grípa til neinna aðgerða gagnvart íslenskum stjórnvöldum vegna málsins, þ.m.t. hækkunar á vástigi. Jafnframt hefur bandaríska strandgæslan lýst því formlega yfir að hún muni héðan í frá ekki framkvæma viðbótarskoðanir á skipum sem koma frá íslenskum höfnum eingöngu vegna þess að þau komu þaðan, eins og hafði verið gert að einhverju leyti og stefndi í að yrði gert áfram,“ segir í svari ráðherra.

Vigdís spurði einnig hvort sá möguleiki hafi verið skoðaður að hælisleitendur sem framið hafa húsbrot hjá skipafélögunum beri ökklabönd sem sýni staðsetningu þeirra þannig að hægt sé að aðvara lögreglu ef þeir nálgast hafnarsvæði eða millilandaflugvelli. Í svari ráðherra segir að ekki sé heimilt að þvinga útlending til að hafa á sér búnað svo hægt sé að fylgjast með ferðum hans, samkvæmt útlendingalögum. Slík heimild sé aðeins í lögum um meðferð sakamála og lögum um fullnustu refsingar. Ákvæði þeirra eigi ekki við í umræddum tilvikum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert