„Það vöknuðu allir við þetta“

Byggðin í Grímsey
Byggðin í Grímsey mb.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

„Maður vaknaði við þetta. Það kom þarna einn dálítið stór og svo annar aðeins minni, og það fannst hreyfing í alla nótt inn á milli,“ segir Garðar Ólason útgerðarmaður í Grímsey. Skjálfti af stærðinni 5,5 skók eyjuna í nótt og fannst um allt Norðurland. Margir tugir eftirskjálfta fylgdu í kjölfarið.

Þegar mbl.is heyrði í Garðari um áttaleytið var hann mættur til vinnu hjá fiskverkuninni Sigurbirni ehf í Grímsey og voru þar skjálftar næturinnar til umræðu hjá starfsfólki. „Það vöknuðu allir við þetta en ég held það hafi ekki orðið neitt tjón,“ segir Garðar.

13 skjálftar yfir 3 stigum

Veðurstofu Íslands bárust tilkynningar frá fólki sem fann stóra skjálftann um allt Norðurland, m.a. frá Grímsey, Húsavík, Raufarhöfn, Mývatnssveit, Akureyri og Sauðárkróki. Skjálftinn, sem varð klukkan 00:59, mældist 5,5 að stærð og kom upp um 15,3 km austur af Grímsey.

Annar skjálfti um 4,3 að stærð varð klukkan 01:13 austur af Grímsey. Í kjölfarið fylgdu tugir eftirskjálfta, yfir 60 á bilinu frá 1 til 3 í nótt og annað eins frá 3 til 6. Flestir áttu upptök sín austur af Grímsey.

Alls eru 13 skjálftar skráðir yfir 3 stigum að stærð á Tjörnesbrotabeltinu. Síðan á sunnudagsmorgun hafa orðið 142 skjálftar milli 1 og 2 stig og 118 skjálftar milli 2 og 3 stig.

Fastir liðir eins og venjulega

Lögreglan á Akureyri segir að nokkrar símhringingar hafi borist þar sem fólk spurðist fyrir um skjálftana og á hverju væri von. Ekki er þó vitað til þess að neitt tjón hafi orðið. Veðurstofan segir að búast megi við því að virknin haldi áfram og fleiri skjálftar finnist. Má jafnvel búast við eftirskjálftum í einhverjar vikur.

Aðspurður segir Garðar að íbúar Grímseyjar geri engar sérstakar ráðstafanir vegna þessa og þótt fólk missi svefn hafi það ekki miklar áhyggjur. „Við erum svo vön þessu, þetta er yfirleitt árvisst hérna.“

Þannig að þetta eru bara fastir liðir eins og venjulega?

„Það má segja það. Þetta er bara svona til að ljúka páskunum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert