Ísland aðili að netöryggiskerfi NATO

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og eistneski starfsbróðir hans, Urmas Paet, voru …
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og eistneski starfsbróðir hans, Urmas Paet, voru vel klæddir í kuldanum í dag.

Íslendingar munu gerast aðilar að netöryggissetri Atlantshafsbandalagsins (NATO) sem starfrækt er í Eistlandi. Setrið er öndvegissetur sem safnar nýjustu þekkingu og aðferðum í baráttunni við tölvuglæpi og netárásir.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra greindi Urmas Paet, utanríkisráðherra Eistlands, frá þessu á á fundi þeirra á Litlu kaffistofunni í dag, að því er segir í tilkynningu.

„Þetta er í anda í þeirrar samstöðu sem myndast hefur  á Alþingi um að efla varnir gegn netárásum. Við teljum rétt að vera í sem nánustu og bestu samstarfi við þá sem hafa mesta þekkingu á þessu sviði, til að styrkja öryggi þjóðarinnar,“ segir Össur í tilkynningunni.

„Utanríkisráðherra Eistlands hvatti okkur til þess á fyrri fundi að ganga til liðs við setrið, við könnuðum málið og þetta er niðurstaðan,“ segir ráðherra ennfremur.

„Með aðild að öndvegissetrinu sækjum við okkur úrvals sérfræðiþekkingu, fáum greiningar og aðrar upplýsingar. Við getum sent okkar sérfræðinga til starfa við setrið sem verður okkur afar gagnlegt þegar fram líða stundir,“ bætir Össur við.

Í tilkynningunni segir, að öndvegissetrið í Eistlandi hafi veirð sett á fót árið 2008 og nú  eigi 15 ríki Atlantshafsbandalagsins aðild að setrinu. Tekið er fram að aðild að því samræmist stefnu og áherslum Íslands, en hér á landi skipi netöryggi aukinn sess í umræðu og viðbúnaði, auk þess sem netöryggi færist sífellt ofar á forgangslista í öryggisstefnum ríkja.

Á fundinum ræddu ráðherrarnir einnig samstarf ríkjanna á ýmsum sviðum. Náin vinátta og aukið samstarf Íslands og Eistlands birtist meðal annars í samvinnu um rekstur sendiráðs í Peking. Í umræðu sinni um alþjóðamál, lýstu báðir áhyggjum af stöðu mála í Norður Kóreu.

Að fundinum í Litlu kaffistofunni loknum, kynnti ráðherra starfsbróður sínum möguleika jarðhitans og þeir kynntu sér einnig starfsemi Garðyrkjuskólans í Hveragerði og heimsóttu gróðurhús.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert