Sjálfstæðismaður í sparifötum

Georg er einlægur stuðningsmaður Sjálfstæðisflokksins. Hér er hann með Ragnheiði …
Georg er einlægur stuðningsmaður Sjálfstæðisflokksins. Hér er hann með Ragnheiði Elínu Árnadóttur alþingismanni og Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur fréttamanni á RÚV, en Georg hefur mikinn áhuga á fréttamennsku og hefur heimsótt RÚV.

„Hann vill helst vera í sparifötum frá morgni til kvölds,“ segir Sigurlaug Lára Ingimundardóttir um 13 ára son sinn, Georg Þór Kristjánsson. Georg er einhverfur og eins og margir sem eiga við þessa fötlun að stríða þá er hann með sterk einkenni um áráttuhegðun. Árátta Georgs snýst ekki um risaeðlur eða bíla, heldur spariföt.

Sigurlaug sagði að Georg hefði frá því hann var smábarn haft mikinn áhuga á að vera í sparifötum. Frá því hann var u.þ.b. 9 ára hefur það verið hluti af umbunakerfi hans að leyfa honum vera í sparifötum. Hann hefði safnað broskörlum fyrir hvern tíma í skólanum. „Ef að hann safnaði fimm broskörlum fram að hádegi þá fékk hann að fara í spariskyrtu. Ef hann náði þremur broskörlum eftir hádegi var hann kominn með bindi og ef hann fyllti kvótann af broskörlum á frístundaheimilinu þá var hann kominn í sparijakka.“

Spáir mikið í fermingarfötin

Sigurlaug segir að Georg eigi mikið af skyrtum og bindum og sparifötum. Oft er það þannig með börn og unglinga, að sparifötin hanga ónotuð inn í skáp. Sigurlaug sagði að það ætti ekki við fötin hans Georgs. „Jakkafötin hans eru slitin þegar þau eru orðin of lítil á hann.“

Sigurlaug sagði að áhugi Georgs á fötum hefði leitt til þess að í herbergi hans væru oft fatahrúgur. Hún hefði því gengið í að kenna honum að ganga frá og nú væru öll föt brotin snyrtilega saman. Næsta verkefni væri að kenna honum að strauja föt.

Georg varð 13 ára sl. miðvikudag og tók á móti gestum í sparifötunum. „Hann byrjaði að spá í fermingarfötin í fyrra. Fyrst var hann ákveðinn í að vera í íslenska þjóðbúningnum, en núna er draumurinn að vera í hvítum smóking.“

Sigurlaug sagði að Georg fengi ekki að vera í sparifötum alla daga. Hann færi í hversdagslegum fötum í skólann og skipti síðan í betri föt þegar hann kæmi heim.

Hægt að nota hann eins og GPS-tæki

Sigurlaug sagði að þeir sem stríða við einhverfu væru oft með einhverja áráttu. Það væri ekki endilega alltaf sama áráttan. „Georg hefur fengið frekar heppilegar áráttur. Þær tengjast oft námi. Það er t.d. hægt að nota hann eins og GPS-tæki. Hann teiknar eftir sjónminni án þess að hafa myndir fyrir framan sig. Hann teiknar heilu landakortin. Þegar við fluttum til Reykjavíkur um 6 ára aldur fór hann að teikna einhverjar línur, sem ég áttaði mig ekki á í fyrstu hvað ættu að merkja, en þá var hann að kortleggja gatnakerfi borgarinnar. Hann teiknaði landslagið og helstu umferðaræðar, hringtorg og fleira.“

Sigurlaug sagði að einu sinni hefði Georg fengið áráttu fyrir umferðarmerkjum. Hann vissi hvar væri einstefna og hvar mætti ekki beygja.

Einu sinni fékk Georg gríðarlegan áhuga á höfuðborgum og lærði nöfn á öllum höfuðborgum í heiminum. Erfitt var að reka hann á gat, nema kannski þegar kom að smáeyjum í Kyrrahafi.

Kenndi sjálfum sér að lesa

„Hann kenndi sjálfum sér að lesa þegar hann var tæplega fimm ára. Við vorum að labba á bryggjunni í Eyjum þegar hann byrjaði að lesa nöfn á bátum. Ég var alls ekki að ýta á hann að læra að lesa því mér fannst annað þurfa að ganga fyrir. Hann kunni margföldunartöfluna sjö ára. Námið gengur því mjög vel,“ sagði Sigurlaug.

Sigurlaug sagði að það sem Georg ætti í erfiðleikum með væru félagsleg samskipti. Hann ætti t.d. erfitt með að vera í margmenni. Hann færi ekki á fótboltaæfingar og hefði ekki gaman að því að vera í íþróttasölum.

„Georg er hins vegar frekar skemmtilegur drengur og er því vel liðinn. Krökkunum finnst hann sniðugur, kannski vegna þess að hann talar stundum eins og gamall maður. Það kemur fyrir að hann er með umvandanir við fullorðna, t.d. varðandi málfar.“

Ákveðinn í að kjósa Sjálfstæðisflokkinn

Sigurlaug sagði að Georg væri með mjög ákveðnar skoðanir í pólitík. „Hann er alveg ákveðinn í að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Ég tek fram að ég er ekki með pólitískt uppeldi,“ sagði Sigurlaug, sem var þekkt sem „Sjálfstæðiskonan“ þegar hún bjó í Garðinum. Það var ekki vegna þess að Sigurlaug væri stuðningsmaður Sjálfstæðisflokksins heldur vegna þess að sonur hennar var búinn að læra utanbókar kosningabækling Sjálfstæðisflokksins fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í Garðinum.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið að koma illa út í skoðanakönnunum síðustu vikur. Sigurlaug sagði að Georg hefði engar áhyggjur af stöðu flokksins. Hann hefði fulla trú á að flokkurinn næði góðum árangri í kosningunum.

Sigurlaug sagði að vinkonur sínar væru ekki allar með á hreinu nöfn á öllum ráðherrum í ríkisstjórninni. Georg er hins vegar með þetta alveg á hreinu.

Hér er Georg í lopapeysu úti að ganga með hundinn. …
Hér er Georg í lopapeysu úti að ganga með hundinn. Hann er, eins og jafnan, snyrtilegur og með bindi.
Georg Þór Kristjánsson tekur sig vel út með slaufu.
Georg Þór Kristjánsson tekur sig vel út með slaufu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert