Engin samgöngumiðstöð í Vatnsmýri

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra og Jón Gnarr, borgarstjóri, undirrituðu samkomulagið í …
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra og Jón Gnarr, borgarstjóri, undirrituðu samkomulagið í dag. Ljósmynd/Innanríkisráðuneytið

Innanríkisráðherra og borgarstjórinn í Reykjavík skrifuðu í dag undir samkomulag um  endurbætur á aðstöðu fyrir farþega og þjónustuaðila á Reykjavíkurflugvelli. Í samkomulaginu felst meðal annars að Isavia taki yfir rekstur og eignarhald á núverandi flugstöð Flugfélags Íslands, að gerð verði viðskiptaáætlun fyrir nýja flugstöð og að fallið verði frá fyrri áformum um byggingu samgöngumiðstöðvar í Vatnsmýri.

Frá þessu segir í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu í dag.

Í samkomulaginu eru talin upp atriði sem varða deiliskipulag á svæðinu og að því verði hraðað þannig að hægt verði að hefja ráðgerðar endurbætur sem fyrst.

Samkvæmt samkomulaginu verður norðaustur/suðvestur flugbrautin lögð af og landið sem losnar sunnan vallarins skipulagt undir blandaða byggð.

Þá verður flugöryggi við austur/vestur flugbrautina bætt, meðal annars með því að lækka gróður í Öskjuhlíðinni og að heimiluð verði uppsetning aðflugsljósa fyrir nákvæmnisaðflug vestan við brautarendann.

Þá er gert ráð fyrir að fundin verði lausn vegna aðstöðu fyrir vélar og tæki vegna rekstrar vallarins á athafnasvæði Isavia við austanverðan völlinn.

Ný flugstöð fyrir allt innanlandsflug

Samkomulagið gerir ráð fyrir því að endurbætt flugstöð tryggi samkeppni í flugstarfsemi og möguleika á að þjónusta fleiri en eitt flugfélag. Allt innanlandsflug verði framvegis hýst þar.

Einnig er samkomulag um að allri umferð herflugvéla og flugi í þágu hertengdrar starfsemi um Reykjavíkurflugvöll verði hætt nema þegar völlurinn þjónar sem varaflugvöllur og vegna öryggis- og björgunarstarfa.

Fram kemur í samkomulaginu að aðilar eru sammála um að kanna möguleika á hringtengingu strætó um Reykjavíkurflugvöll sem talin er möguleg. Mun útfærsla hennar taka mið af því hvort Reykjavíkurborg hyggst ráðast í fyllingar í Skerjafirði samkvæmt gildandi aðalskipulagi.

Frá undirrituninni í dag.
Frá undirrituninni í dag. Ljósmynd/Innanríkisráðuneytið
Frá undirritun samkomulagsins í dag.
Frá undirritun samkomulagsins í dag. Ljósmynd/Innanríkisráðuneytið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert