Ein þyrla til taks og án nætursjónauka

Gná þurfti að nauðlenda í nágrenni Hornafjarðar í dag.
Gná þurfti að nauðlenda í nágrenni Hornafjarðar í dag. Af vef Landhelgisgæslunnar

Nú er aðeins ein þyrla til taks hjá Landhelgisgæslunni eftir að Gná varð að nauðlenda við Hornafjörð og Líf er í skoðun. Viðvörunarljós kviknaði í mælaborði Gnár yfir sjó en þyrlunni var nauðlent heilu og höldnu á landi skömmu síðar.

Verið er að undirbúa þriðju þyrlu Gæslunnar, Syn, til að flytja flugvirkja og varahluti til Gnár. „Það mun koma í ljós hversu mikil bilunin er,“ segir Ásgrímur L. Ásgrímsson, framkvæmdastjóri aðgerðarsviðs Landhelgisgæslunnar í samtali við mbl.is. Hann segir því enn eiga eftir að skýrast hvort að hægt verði að fljúga Gná til Reykjavíkur eða hvort flytja þurfi hana á bíl. 

Ásgrímur segir að í augnablikinu sé því aðeins ein þyrla Gæslunnar flughæf, Syn. „Hún hefur takmarkaðri getu en hinar vélarnar, aðallega vegna þess að hún er ekki útbúin sjónauka til næturflugs,“ útskýrir Ásgrímur. „En sem betur fer er nóttin að styttast og tekið að birta.“

Hann segir að auðvitað sé vonast til þess að bilunin í Gná sé ekki alvarleg en verði ekki hægt að fljúga vélinni fljótlega verði gripið til varúðarráðstafanna. „Þá geri ég ráð fyrir að allt verði sett á fullt í að ljúka skoðuninni á TF-Líf sem fyrst.“

Líf er í reglubundinni skoðun hér á landi og tekur hún alltaf nokkrar vikur. 

Ásgrímur bendir einnig á að Gæslan sé alltaf í samstarfi við nágrannalöndin varðandi öryggismál. Til dæmis sé von á dönsku varðskipi hingað innan fárra daga. Þyrla er um borð þess skips.

Viðvörunarljós kviknaði í mælaborði Gnár er hún var yfir hafi á leið að sækja veikan sjómann. „Þeir verða að lenda henni þegar það kemur,“ segir Ásgrímur. Fimm manns voru um borð. Vélinni var flogið til lands og henni lent strax og færi gafst. Hann segir að vélin hafi ekkert skemmst við lendinguna.

Frétt mbl.is: Þyrla Gæslunnar þurfti að nauðlenda

Flogið með Gná.
Flogið með Gná. mbl.isÁrni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert