„Vonandi nær hún að unga þessu út“

„Það er bara allt gott að frétta af henni. Hún liggur bara á hreiðrinu og enginn hættir sér nálægt henni því hún ver þetta alveg bara eins og hún á að gera,“ segir Haukur Snorrason en hann hefur fylgst að undanförnu með álft sem missti egg á ísilagða Hrísatjörnina í Friðlandi Svarfdæla við Dalvík 7. maí síðastliðinn. Haukur tók eggið og hélt hita á því þar til honum tókst að lauma því í hreiðrið nýverið þegar álftin og maki hennar voru fjarverandi. Þá var ekkert annað egg komið í hreiðrið.

„Við bíðum núna bara eftir því að sjá hvað hún kemur upp mörgum ungum,“ segir Haukur. Hann segir aðspurður að ekkert annað egg hafi verið í hreiðrinu þegar hann hafi komið egginu í það. „En hún er búin að liggja núna í viku á þannig að það eru pottþétt fleiri komin. Annars lægi hún ekki svona fast á. Vonandi nær hún að unga þessu út líka.“

Haukur segist ekkert hafa reynt að komast nálægt hreiðrinu síðan hann kom egginu í hreiðrið enda þyrfti álftin og maki hennar að fá sinn frið til þess að hugsa um eggin. Það væri síðan hægt að kanna það þegar ungarnir væru komnir úr eggjunum hvað væri eftir í hreiðrinu eða við það. Hvort þar væri hugsanleg fúlegg sem hún hefði ýtt í burtu.

Frétt mbl.is: Laumaði egginu í hreiðrið

Frétt mbl.is: Ver hreiðrið með kjafti og klóm

Frétt mbl.is: Eggið ennþá munaðarlaust

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert