Laumaði egginu í hreiðrið

Álft sem verpti eggi á ísilagða Hrísatjörnina í Friðlandi Svarfdæla við Dalvík, lá á egginu alla helgina eftir að tókst að lauma því í hreiðrið og má því vonast til að eggið klekist út.

„Ég sætti lagi á föstudaginn þegar parið brá sér bæjarleið og setti eggið í hreiðrið,“ segir Haukur Snorrason, sem fylgst hefur náið með þróun mála eftir að hann varð álftareggsins fyrst var á frosinni tjörninni fyrir viku síðan.

Álftin reyndi eitthvað að eiga við eggið en gat ekki komið því burt af ísnum. Það var því tekið mannahöndum og haldið á því hita í von um að hægt yrði að koma því aftur til hennar þegar hún kæmi sér upp hreiðri.

Bændur tveir úr nágrenninu, Gunnsteinn á Sökku og Baldur frá Bakka, fóru álftinni til aðstoðar með hálmhrúgu og setti á sinutoppa sem stóðu upp úr snjónum nálægt varpstaðnum, en álftin sem hefur lengi verpt á þessum slóðum. Úr varð að parið nýtti sér hálminn til hreiðurgerðar en varði jafnframt hreiðrið með kjafti og klóm og varð því ekki hlaupið að komast að því með eggið.

Það tókst þó á föstudaginn og á munaðarlausa eggið sér því von. „Kerlunni virðist líka þetta vel þú hún hefur legið á alla helgina,“ segir Haukur sem smellti í dag mynd af skötuhjúunum þar sem þau kúra hlið við hlið í hreiðrinu.

„Nú er bara að sjá hversu vel þeim gengur með útungunina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert