Tíðinda er að vænta innan skamms

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson munu halda áfram stjórnarmyndunarviðræðum …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson munu halda áfram stjórnarmyndunarviðræðum í dag. Ljósmynd/Svanhildur Hólm

Formenn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins funduðu um stjórnarmyndun um helgina og munu áfram funda í dag. Tíðinda er að vænta innan skamms, þó líklega ekki í dag. Þingflokkar flokkanna hafa ekki verið boðaðir á fund í dag, en vinna við stjórnarsáttmála er langt komin.

Þetta segir Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins.

„Þeir [Sigmundur Davíð og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins] munu hittast síðar í dag, líklega upp úr hádegi og væntanlega innan bæjarmarkanna,“ sagði Jóhannes og gat ekki gefið upp staðsetningu fundarins. „Það er verið að reyna að berja þetta saman.“

„Þetta er smám saman að gerast, eins og gengur og gerist. Menn hafa verið að fara yfir málefnin og ræða málefnaskiptinguna. Þetta er allt í ágætum gír,“ segir Jóhannes og segir ekki fleiri hafa verið við fundarborðið um helgina en formennina tvo og aðstoðarmenn þeirra.

Hann segir tíðinda að vænta fljótlega. Verður það í dag? „Nei, líklega ekki, en fljótlega eftir þessa löngu helgi. En það er ekkert hægt að gefa út um hvenær staðan verður gerð opinber fyrr en flokksstjórnar- og miðstjórnarfundir hafa verið boðaðir og það er ekki búið að taka ákvörðun um tímasetningu á þeim. “

Spurður um hvort ráðherralisti liggi fyrir segir Jóhannes ekki hægt að greina frá því. „Menn hafa mest verið í þessum praktísku málum, eins og t.d. hvað varðar málefnaskiptinguna á milli flokka og hvernig ráðuneytin verða sett upp.“

Geturðu staðfest að Sigmundur Davíð verði forsætisráðherra, eins og komið hefur fram í fjölmiðlum? „Nei, það get ég ekki staðfest,“ segir Jóhannes.

Frétt mbl.is: Ný stjórn tekur á sig mynd

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert