Breytingar á skipulagi fjármálaráðuneytis

Bjarni Benediktsson.
Bjarni Benediktsson. mbl.is/Ómar Óskarsson

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur ákveðið breytt skipulag fjármála- og efnahagsráðuneytis. Breytingarnar eru í samræmi við forsetaúrskurð frá 23. maí um skiptingu stjórnarmálefna í Stjórnarráði Íslands, segir í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu.

Helstu breytingarnar snúa að tilflutningi málefna fjármálamarkaðarins til fjármála- og efnahagsráðuneytis. Ákveðið hefur verið að þau falli undir skrifstofu efnahagsmála og fjármálamarkaðar.

Skrifstofan hefur umsjón með undirbúningi og eftirfylgni með efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar, samhæfingu opinberrar hagstjórnar og kynningu á efnahags- og hagstjórnarmálum innanlands og utan.

Í því skyni annast skrifstofan mat á þróun og horfum í efnahagsmálum og samskipti við Hagstofu Íslands um gerð þjóðhagsspár. Skrifstofan annast gerð hagfræðilegra athugana, vöktun hagstærða, samskipti við erlend matsfyrirtæki og ýmsar alþjóðlegar stofnanir á sviði efnahagsmála.

Skrifstofan annast málefni fjármálamarkaðar, lagaumgjörð og eftirlit á því sviði. Þar undir fellur umgjörð og eftirlit með fjármálafyrirtækjum, málefni verðbréfamarkaða, innstæðutryggingar og Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta, vátryggingar og vátryggingarstarfsemi, viðlagatryggingar, greiðslukerfi og greiðsluþjónusta.

Undir verksvið skrifstofunnar falla jafnframt peningamál, gjaldeyrismál og mál er lúta að fjármálastöðugleika, að svo miklu leyti sem þau málefni falla undir ráðuneytið. Að auki fer skrifstofan með málefni Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitið að því marki sem þau heyra undir ráðuneytið.

Kjara- og mannauðssýsla ríkisins

Aðrar breytingar í ákvörðun ráðherra varða nafngift á sérstakri einingu um kjara- og mannauðsmál sem sett var á laggirnar við síðustu breytingar á skipulagi ráðuneytisins. Sú eining heitir Kjara- og mannauðssýsla ríkisins.  Einingin sinnir m.a. ráðgjöf og stuðningi við ráðuneyti og ríkisstofnanir, leiðbeiningum um ákvæði starfsmannalaga og framkvæmd kjarasamninga, fræðslumálum, málefnum forstöðumanna, starfsþróun og samstarfi við samtök launþega og samtök sveitarfélaga um launa- og kjaramál.

Sjá nánar hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert