Fagna undirritun vopnaviðskiptasamnings

mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Rauði krossinn á Íslandi fagnar því að íslensk stjórnvöld skuli vera í hópi fyrstu ríkja sem undirrita alþjóðlegan vopnaviðskiptasamning Sameinuðu þjóðanna í New York í dag.  Um tímamótasamning er að ræða þar sem í fyrsta sinn er kveðið á um bann við sölu eða flutningi vopna og skotfæra ef minnsti grunur er leikur á að þeim verði beitt til að fremja stríðsglæpi, segir í frétt frá Rauða krossi Íslands.

Rauði krossinn fagnar því einnig að íslensk stjórnvöld skuli ekki einungis hafa stutt gerð þessa samnings með ráðum og dáð þegar hann var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í apríl, heldur að auki haft frumkvæði um að í honum væri mikilvægt ákvæði sem bannar ríkjum að selja eða miðla vopnum sem verði beitt til að fremja kynbundið ofbeldi eða brot gegn börnum, þar sem slíkt er skýlaust brot á alþjóðlegum mannúðar- og mannréttindalögum.  Þetta er í fyrsta sinn sem tengslin milli vopnaviðskipta og kynbundins ofbeldi er viðurkennt í alþjóðasamningi.

Rauða kross hreyfingin skorar á ríki heims að undirrita, fullgilda og innleiða samninginn eins fljótt og verða má.  Þannig geta þjóðríki lagt lóð sín á vogarskálarnar í baráttunni fyrir aukinni velferð milljóna manna um heim allan sem búa við vopnuð átök þar sem kerfisbundnum mannréttindabrotum er beitt gegn óbreyttum borgunum.

Rauði krossinn á Íslandi telur að starfsmenn utanríkisráðuneytisins eigi hrós skilið fyrir vasklega framgöngu í þessu máli og vonar verður samningurinn fullgiltur og innleiddur fljótlega. „Íslenska ákvæðið um ofbeldi gegn konum og börnum er nokkuð sem Íslendingar geta verið stoltir af, segir í frétt frá Rauða krossinum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert