Tilraun til að létta pressu af stjórninni

Katrín Júlíusdóttir.
Katrín Júlíusdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

„Mér finnst þetta býsna langsótt, sérstaklega að halda því fram að þarna séu einhver agaleg ný tíðindi á ferðinni. Þetta er sú viðkvæma staða í ríkisfjármálunum sem við höfum alltaf talað um. Það var þess vegna sem ríkisstjórnarflokkarnir fyrrverandi lofuðu nánast engu í þessum kosningum,“ segir Katrín Júlíusdóttir, þingkona Samfylkingarinnar og fyrrverandi fjármálaráðherra um þá fullyrðingu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra og Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um að staða ríkissjóðs sé verri en talið hefur verið og að það markmið að ná afgangi í ríkisrekstri hafi ekki náðst. Bjarni og Sigmundur ræddu þetta við blaðamenn á fundi í gær.

Ekkert sé nýtt í því að ákveðnar stofnanir gætu farið fram úr áætlun og hagvaxtarspá sem geri ráð fyrir minni hagvexti en búist var við hafi verið komin fram í byrjun apríl.

Katrín segir að ákveðnir liðir fjárlaga séu alltaf að taka breytingum. Þeir sex milljarðar sem talin sé hætta á að keyrt verði fram úr með, séu til dæmis einfaldlega viðfangsefni stjórnvalda hverju sinni að gæta.

„Ef menn gæta ekki aðhalds og að því að stofnanir fari ekki fram úr fjárheimildum geta svona hlutir vissulega gerst. Það er bara verkefnið,“ segir hún.

Katrín segir það koma sér spánskt fyrir sjónir að verið sé að hnýta í 200 milljóna króna útgjaldaaukningu umfram fjárlög vegna tannlækninga barna á sama tíma og lagt sé fram frumvarp um breytingu á veiðigjaldi sem skrifstofa fjármálaráðuneytisins fullyrði að dragi úr tekjum ríkisins um 3,2 milljarða króna á þessu ári.

„Þetta er klárlega tilraun til að létta ákveðinni pressu og þyrla upp ryki á meðan þeir setja frumvarp inn í þingið sem skilar tekjutapi upp á 3,2 milljarða króna á þessu ári strax. Það eru þeirra eigin verk,“ segir Katrín.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert