Ráðuneytið pantaði ekki nýjan bíl

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Forsætisráðuneytið hafði ekki pantað nýjan bíl fyrir fyrrverandi forsætisráðherra undir lok kjörtímabilsins eins og lesa má í umfjöllum Viðskiptablaðsins í dag. Ráðuneytið hefur því ekki heldur afpantað bíl eins og fjallað er um.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá innanríkisráðuneytinu.

 „Við ríkisstjórnarskiptin 23. maí síðastliðinn voru fengnir lánaðir tveir bílar frá umboðum auk bíla frá utanríkisráðuneytinu og leigubíla sem notaðir voru en þeim var skilað eftir fáa daga,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.

Í frétt Viðskiptablaðsins sagði að forsætisráðuneytið hefði skilað ráðherrabíl sem Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, lét panta skömmu áður en hún lét af embætti. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, aki því um á bifreið sem keypt var í forsætisráðherratíð Halldórs Ásgrímssonar, árið 2004.

Óðinn Helgi Jónsson, skrifstofustjóri forsætisráðuneytisins, hefur sent fjölmiðlum eftirfarandi bréf:

„Vísað er til fyrirspurnar þinnar um bílamál ráðherra sem barst ráðuneytinu í tölvupósti fyrr í morgun.

Því er helst til að svara að megininntak fréttaflutnings Viðskiptablaðsins um pöntun eða skil á nýjum ráðherrabíl fyrir forsætisráðuneytið er rangur.

Jóhanna Sigurðardóttir fyrrverandi forsætisráðherra pantaði alls engan nýjan ráðherrabíl til reynslu við lok kjörtímabilsins, hvorki Benz bifreið né aðra bílategund og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur ekki heldur með neinum hætti komið að bílamálum né vali á bílum sem ráðuneytin leggja ráðherrum til vegna starfa þeirra og í opinberum erindisgjörðum þeirra.

Rekstur, viðhald og endurnýjun allra ráðherrabíla fyrir öll ráðuneytin er rekið miðlægt og undir einum hatti, og er í umsjón innaríkisráðuneytisins.

Innanríkisráðuneytið sem heldur utan um bifreiðamál ráðherra fyrir öll ráðuneytin hyggst senda út nánari leiðréttingu á þessum fréttaflutningi í dag.

Það er hins vegar rétt sem kemur fram í fréttinni að forsætisráðherra er lögð til bifreið að tegundinni BMW sem er árgerð 2004 og er í góðu ástandi þrátt fyrir aldur. Tvær slíkar bifreiðar voru keyptar af þessari tegund fyrir ráðuneytin það ár.

Sigmundur lét skila bíl Jóhönnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert