Vill sérstaka umræðu um Snowden

AFP

„Hvern á að kæra fyrir njósnir: þá sem stunda víðtækar njósnir á almenningi, ekki bara í Bandaríkjunum heldur jafnframt um heim allan, eða uppljóstrarana sem láta almenning vita sannleikann?“ Svona spyr Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, vegna fréttar um að stjórnvöld í Bandaríkjunum hafi lagt fram ákæru gegn Edward Snowden.

Snowden sem er fyrrverandi starfsmaður bandarísku leyniþjónustunnar er ákærður fyrir njósnir, þjófnað og að hafa „misnotað opinberar eignir“. Hann upplýsti um stórfellt eftirlit Þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna (NSA) með síma- og netnotkun fjölda Bandaríkjamanna.

Þá hafa bandarísk stjórnvöld farið fram á að yfirvöld í Hong Kong, þar sem hann dvelur, taki hann höndum og framselji til Bandaríkjanna. Eins og fram hefur komið hefur Snowden lýst áhuga á að sækja eftir pólitísku hæli á Íslandi.

Birgtitta gerir málið að umtalsefni á samfélagsvefnum Facebook í dag. Þar segist hún hafa óskað eftir sérstökum umræðum á Alþingi um NSA og afhjúpanir Snowdens. Hún vonast til að umræðan verði sett á dagskrá þingsins eftir helgina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert