Undirritaði þrjá fríverslunarsamninga

Frá ráðherrafundinum í Þrándheimi.
Frá ráðherrafundinum í Þrándheimi.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra tók í dag þátt í ráðherrafundi EFTA-ríkjanna sem haldinn var í Þrándheimi. Í tengslum við fundinn undirritaði utanríkisráðherra fyrir hönd Íslands fríverslunarsamninga við Kostaríka, Panama og Bosníu - Herzegóvínu. Nú hafa EFTA-ríkin undirritað 26 fríverslunarsamninga við 36 ríki. Á fundinum skrifaði utanríkisráðherra einnig undir samstarfsyfirlýsingar EFTA við Mjanmar (Búrma). Þetta kemur fram í frétt frá utanríkisráðuneytinu. 

Utanríkisráðherra lýsti ánægju með það öfluga starf sem unnið er innan EFTA við fríverslunarnet EFTA-ríkjanna við ríki utan Evrópusambandsins og sagði það í samræmi við áherslur nýrrar ríkisstjórnar. Hvatti  utanríkisráðherra sérstaklega til þess að stefnt yrði á að ljúka fríverslunarviðræðum EFTA-ríkjanna og tollabandalags Rússlands, Hvíta-Rússlands og Kasakstan á þessu ári. Þá ræddu ráðherrarnir um stöðu fríverslunarviðræðna EFTA-ríkjanna við Indland, Indónesíu og Víetnam og fögnuðu því að viðræður myndu hefjast fljótlega við Malasíu.

Á fundinum ræddu ráðherrarnir um fríverslunarviðræður Bandaríkjanna og Evrópusambandsins og ákváðu að óska eftir viðræðum við bandarísk stjórnvöld til að fara yfir stöðu mála og greina frá hagsmunum EFTA-ríkjanna í tengslum við áform þessara helstu viðskiptaríkja EFTA um að gera með sér víðtækan fríverslunar- og fjárfestingarsamning (TTIP). Á fundinum upplýsti utanríkisráðherra ráðherra hinna EFTA-ríkjanna um þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að gera hlé á aðildarviðræðum Íslands að Evrópusambandinu. Einnig ræddu ráðherrarnir um stöðu viðræðna innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.

Ráðherrarnir ræddu framvindu EES-samningsins. Utanríkisráðherra ítrekaði mikilvægi hans fyrir Ísland og sagðist myndi leggja ríka áherslu á að tryggja virkni hans og styrkja enn frekar þátttöku Íslands í EES-ferlinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert