„Kvöldið verður gríðarlega blautt“

„Seinni parturinn á morgun og fram á annað kvöld um landið sunnan- og vestanvert verður óspennandi. Það má segja að það verði allt á floti á Suður- og Suðausturlandi,“ segir Óli Þór Árnason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. „Það rignir líklega um allt land. Það verður kannski ekki samfelld úrkoma á Norðurlandi og það hlýnar aðeins með úrkomunni þar.“

Annað kvöld segir Óli Þór að verði gríðarlega blautt. „Í höfuðborginni byrjar sennilega að rigna upp úr hádegi og á morgun og mesta úrkoman verður frá því um kaffileytið og líklega framundir miðnætti,“ segir Óli Þór.

„Eftir það verður þetta rigning með köflum. Það snýst í vestanátt líklega strax á laugardagsmorgun, þannig að þetta verður skúrakenndara. Aðfaranótt sunnudags og á sunnudaginn gæti hann hangið að mestu leyti hangið þurr um landið allt,“ segir Óli Þór.

„Bölvaður ruddi“

„Annars verður sunnudagurinn góður víðast hvar með lítilli úrkomu. Sunnudagskvöldið er óljóst vegna lægðar fyrir suðaustan landið, sem er stærsti óvissuþátturinn hjá okkur um hvort sunnudagskvöldið haldist þurrt. Það verður enginn einn staður þurr alla helgina. Leiðinlegasta veðrið verður um landið sunnan- og vestanvert, sérstaklega seinnipartinn á morgun og fram á nóttina. Það verður bölvaður ruddi,“ segir Óli Þór.

Veðurstofan varar fólk við að vera á ferðinni með tengivagna, þar sem vindur verður víða um og yfir 15 metrar á sekúndu og gæti farið í 30 metra á sekúndu í vindhviðum.

„Þessi hefðbundnu svæði eins og Kjalarnes, Hafnarfjall, Ingólfsfjall og undir Eyjafjöllum, þar getur orðið býsna vindasamt og eins víða á Snæfellsnesi. Hjólhýsi og háir húsbílar geta lent í vandræðum. Ef fólk ætlar að ferðast um landið verður það að fara tímanlega og sætta sig við að það verður ekki alveg þurrt,“ segir Óli Þór.

Veðurhorfur næstu daga

Á vef Veðurstofu Íslands segir að næsta sólarhringinn verði norðaustan 5-13 m/s og rigning með köflum um sunnan- og austanvert landið, annars úrkomulítið. Dregur úr úrkomu og vindi í kvöld. Hæg sunnanátt og þurrt í fyrramálið en hvessir síðan. Suðaustan 10-18 eftir hádegi, hvassast suðvestantil og talsverð rigning sunnan- og vestanlands. Hiti 7 til 15 stig, hlýjast á Vesturlandi í dag en norðaustantil á morgun.

Á laugardaginn verður suðvestan 8-15 m/s og rigning eða skúrir, en hægari og úrkomuminna norðaustantil. Norðvestan 8-15 um kvöldið og rigning um landið norðanvert, en styttir upp að mestu sunnanlands. Hiti 7 til 15 stig, hlýjast austanlands. 

Á sunnudaginn verður sunnan- og suðvestan 5-10 m/s. Skýjað að mestu og sums staðar lítilsháttar væta, en birtir til á austanverðu landinu. Hiti 8 til 17 stig, hlýjast á Austurlandi.

Veðrið hefur þegar sett strik í reikninginn fyrir ferðalanga um helgina, því útihátíðinni Hallgeirsey hefur verið aflýst vegna veðurs. Þá má gera ráð fyrir að töluvert rigni á Eyjamenn, sem fagna goslokum um helgina.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert