Öfugsnúin barátta fyrir réttindum Snowden

Jón Magnússon.
Jón Magnússon.

Jón Magnússon, hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að einstaklingshyggjumenn ættu að skoða hvort hugsun og sjónarmið sem uppljóstrarinn Edward Snowden stendur fyrir séu ekki nær hugmyndafræði einstaklingshyggju og frjálshyggju en hugmyndafræði vinstra fólks.

Á vefsvæði sínu fjallar Jón um Snowden og uppljóstranir hans. „Öll viljum við hafa einkamál okkar fyrir okkur sjálf og finnst ógeðfellt að opinberir aðilar fylgist með símtölum okkar, tölvupóstum, sms, vörukaupum og fleiru. Persónuvernd og einstaklingsfrelsi er grundvallaratriði í frjálsu þjóðfélagi.“

Hann segir að uppljóstranir Snowden um njósnir ríkisstjórnar Bandaríkjanna ættu að vera umhugsunarefni fyrir frjálslynt og hægri sinnað fólk. Hann sé einstaklingur sem ásamt svo fjölmörgum öðrum sé á móti því að búa við að það samtöl þeirra séu hleruð og hljóðrituð.

Þá bendir Jón á að Snowden studdi frjálslynda einstaklingshyggjumanninn Ron Paul í forkosningum repúblikana til forseta í fyrra, en hann vill draga úr völdum og áhrifum ríkisins og beitingu Bandaríkjahers.

„Miðað við þær forsendur er öfugsnúið að Ögmundur Jónasson og Birgitta Jónsdóttir skuli berjast fyrir réttindum Snowden og hann njóti verndar og fái notið mannréttinda, en hvorki Bjarni Benediktsson né Sigmundur Davíð,“ segir Jón Magnússon.

Snowden er hetja, segir þessi stuðningsmaður uppljóstrarans.
Snowden er hetja, segir þessi stuðningsmaður uppljóstrarans. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert