Grunar að skýrsla Geirs sé pólitísk

Eva hauksdóttir
Eva hauksdóttir mbl.is/Ómar Óskarsson

Eva Hauksdóttir er ósátt við úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál þess efnis að veita henni aðeins takmarkaðan aðgang að skýrslunni sem Geir Jón Þórissonar, fyrrverandi yfirlögregluþjónn, skrifaði um búsáhaldabyltinguna. Hún telur aðgang hennar að skýrslunni óeðlilega takmarkaðan.

„Það sem kemur mér á óvart er hvað það er sem ég fæ aðgang að. Ég hélt þegar ég fékk þennan úrskurð að það væri hluti af skýrslunni. Þetta er hins vegar ekkert annað en beinar tilvitnanir í fjölmiðla og svo fæ ég auk þess að sjá það sem er skrifað um mig sjálfa. Mér finnst þetta algjörlega fáránlegt,“ segir Eva. „Í 270 blaðsíðna skjali getur ekki verið að allt sem þar standi sé annaðhvort eitthvað sem varði þjóðaröryggi eða einkahagi einstaklinga Það bara getur ekki verið.“

Hún segir að einhverjir kaflar skýrslunnar hljóti að snúast um eitthvað annað en þetta tvennt. „Þessi kafli sem snýr að mér er að mestu leyti bein atvikalýsing á atburðum sem var fjallað um í fjölmiðlum og í heimildamynd. Það má ætla að restin af skýrslunni sé svipuð,“ segir hún. 

Í frétt mbl.is á föstudaginn sagði Stefán Eiríksson að ákvörðun lögreglustjóra um að synja Evu um aðgang að skýrslunni hafi í raun verið staðfest. „Mér finnast þetta bara vera vélabrögð að nota þau rök að þarna séu eingöngu viðkvæmar persónuupplýsingar. Það getur ekki verið að í þessu séu bara persónuupplýsingar.“

Undrast ekki það sem stendur, því það er allt komið fram

Eva segist á engan hátt undrast það sem hún hafi lesið í þeim hlutum skýrslunnar sem hún fékk aðgang að, því það hafi allt birst áður. „Þetta er bara fyrirsláttur. Það má ætla að þarna sé að finna pólitíska afstöðu, sem lögreglan á ekki að hafa til svona mála. Ég tel mjög líklegt að slík afstaða komi fram í skýrslunni. Það gerði það allavega í fyrirlestri sem Geir Jón Þórisson hélt um efni skýrslunnar. Hann hélt erindi hjá stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins um búsáhaldabyltinguna, sama efni og skýrslan fjallar um, undir heitinu „Aðförin að Alþingi.“ Það er ástæðan fyrir því að ég óskaði eftir aðgangi að skýrslunni, segir Eva.

Hún telur að þessi skýrsla eigi að vera opinbert plagg að svo miklu leyti sem hægt er, og þá með því að afmá persónuupplýsingar úr henni. „Það skal enginn segja mér að það sé svona rosalega flókið. Ég velti fyrir mér hverjum úrskurðarnefnd um upplýsingamál þjónar. Á hún ekki að vera til þess að almenningur þurfi ekki að fara með öll smámál fyrir dómstóla?“

Frétt mbl.is: Aðgangur Evu Hauks takmarkaður

Frétt mbl.is: Eva fær aðgang að skýrslunni

Bloggfærsla Evu um málið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert